Erlent

Loftslagsráðherrann kýldur úti á götu

Kjartan Kjartansson skrifar
James Shaw, loftslagsmálaráðherra Nýja-Sjálands, var á leiðinni í þinghúsið í Wellington þegar karlmaður réðst á hann.
James Shaw, loftslagsmálaráðherra Nýja-Sjálands, var á leiðinni í þinghúsið í Wellington þegar karlmaður réðst á hann. Vísir/Getty
Nýsjálendingar eru sagðir slegnir eftir að ráðist var á loftslagsmálaráðherra landsins úti á götu þegar hann var á leið í þinghúsið í morgun. Ráðherrann slasaðist ekki alvarlega en ekki er ljóst hvort að árásin hafi átt sér pólitískar ástæður.

Karlmaður vatt sér upp að James Shaw, varaformanni Græna flokksins, og kýldi hann í andlitið í miðborg Wellington. Árásarmaðurinn, sem er 47 ára gamall, var handtekinn og á að koma fyrir dómara á morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

David Parker, viðskiptaráðherrann, segir að árásarmaðurinn hafi öskrað hluti um Sameinuðu þjóðirnar áður en hann kýldi Shaw sem fékk glóðarauga.

Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa lýst yfir undrun og áhyggjum, þar á meðal Jacinda Ardern, forsætisráðherra.

„Á Nýja-Sjálandi býst maður bara ekki við að svona hlutir gerist. Við erum með umhverfi á Nýja-Sjálandi þar sem stjórnmálamenn eru aðgengilegir og það er eitthvað sem við ættum að vera stolt yfir,“ sagði hún og varaði við því að landsmenn tækju því sem gefnum hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×