Erlent

Kaupsýslumaður ákærður fyrir morð á blaðamanni og unnustu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þúsundir Slóvaka komu saman til að minnsta Kuciak og Kusnirovu í miðborg Bratislava í febrúar þegar ár var liðið frá því að þau voru myrt.
Þúsundir Slóvaka komu saman til að minnsta Kuciak og Kusnirovu í miðborg Bratislava í febrúar þegar ár var liðið frá því að þau voru myrt. Vísir/EPA
Saksóknarar í Slóvakíu hafa ákært þarlendan kaupsýslumann sem þeir saka um að hafa skipað fyrir um morðið á ungum blaðamanni og unnustu hans í fyrra. Morðið varð kveikjan að fjölmennum mótmælum sem enduðu með afsögn forsætisráðherra landsins.

Jan Kuciak og Martina Kusnirova voru bæði 27 ára gömul. Þau voru skotin til bana á heimili sínu í Velka Maca í febrúar í fyrra. Fjórir menn hafa áður verið ákærðir vegna morðanna. Lögreglan hefur ekki nafngreint kaupsýslumanninn en slóvakískir fjölmiðlar segja að hann heiti Marian Kocner, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Saksóknararnir segja að parið hafið verið drepið vegna rannsóknarblaðamennsku Kuciaks. Hann hafði fjallað um spillta kaupsýslumenn, niðurgreiðslur Evrópusambandsins, virðisaukaskattsvik og tilraunir ítalskrar mafíu til að mynda tengsl við slóvakíska stjórnmálamenn.

Mótmælin vegna morðanna á parinu leiddu til þess að Robert Fico, forsætisráðherra, sagði af sér í mars í fyrra. Í grein Kuciak sem birtist að honum látnum komu fram ásakanir um að tveir ráðgjafar Fico væru tengdir 'Ndrangheta-mafíunni á Ítalíu.


Tengdar fréttir

Í haldi fyrir morð Kuciaks

Dómstóll í Slóvakíu úrskurðaði fjóra í gæsluvarðhald í gær þar til mál þeirra fer fyrir dóminn, en viðkomandi eru ákærð fyrir að hafa myrt rannsóknarblaðamanninn Ján Kuciak og Martinu Kusnírová, unnustu hans, í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×