Erlent

Telja að blaðamaður hafi verið myrtur vegna umfjöllunar um meint skattsvik

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Margir hafa kveikt á kertum fyrir Ján Kuciak í  Slóvakíu.
Margir hafa kveikt á kertum fyrir Ján Kuciak í Slóvakíu. EPA/Vísir
Blaðamaður í Slóvakíu var myrtur ásamt unnustu sinni og er talið að morðin tengist starfi hans. Ján Kuciak var 27 ára gamalll og var að rannsaka ásakanir um skattsvik viðskiptamanna tengdum stærsta stjórnmálaflokknum í Slóvakíu.

Lík Kuciak og unnustu hans Martinu Kušnírová fundust á heimili sínu á sunnudag eftir að áhyggjufullir ættingjar höfðu samband við lögreglu. Hafði þá ekki heyrst frá þeim í viku. Samkvæmt frétt Guardian voru þau skotin og er haft eftir lögreglumanninum Tibor Gašpar að þetta tengist líklega rannsóknarblaðamennsku.

Kuciak skrifaði fyrir fréttavefinn Aktuality.sk og skrifaði þar aðallega um skattamál.  Í frétt Guardian kemur fram að síðasta fréttin hans hafi birst þann 9. febrúar og hafi verið um hugsanleg skattsvik í kringum lúxusíbúðirnar Five Star Residence. Hafði hann rannsakað þetta mál í einhvern tíma. Í október skrifaði hann á Facebook um símtal með hótunum frá viðskiptamanni sem tengdist málinu.

„Það eru 44 dagar síðan ég lagði fram kæru... vegna hótana.“

Lögregla veit ekki hvenær parið var skotið en telur að það hafi verið einhvern tíman á milli fimmtudags og sunnudags. Það voru merki um að unnustan hefði reynt að fela sig fyrir morðingja sínum. Ríkisstjórn Slóvakíu hefur lofað háum fundarlaunum fyrir þann sem getur gefið upplýsingar um þá sem frömdu ódæðið.

Robert Fico forsætisráðherra sagði í tilkynningu að ef það sannaðist að málið tengdist starfi blaðamannsins væri það „árás á frelsi fjölmiðla og lýðræðið í Slóvakíu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×