Enski boltinn

Chelsea í hóp með Grímsstöðum á Fjöllum og laxveiðijörðum í Vopnafirði?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Áætlanir um endurgerð Stamford Bridge, sem hafa verið settar á hilluna, gerðu ráð fyrir kostnaði upp á einn milljarð punda
Áætlanir um endurgerð Stamford Bridge, sem hafa verið settar á hilluna, gerðu ráð fyrir kostnaði upp á einn milljarð punda mynd/bbc

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe hefur áhuga á að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea samkvæmt The Times. Chelsea myndi bætast í ríkulegan hóp eigna Ratcliffe sem inniheldur meðal annars laxveiðijarðir á Norðausturlandi og veiðiklúbbin Streng.

Ratcliffe á fjölda laxveiðijarða í Vopnafirði, Grímsstaði á Fjöllum og mikinn meirihluta í veiðiklúbbnum Streng, sem hefur tvær eftirsóttustu laxveiðiár landins á leigu.

Hann er ríkasti maður Bretlandseyja og einn af ríkari mönnum heims.

Jim Ratcliffe. vísir/getty

Síðasta ár hefur Ratcliffe fjárfest í hinum ýmsu íþróttafélögum, hann á svissneska liðið FC Lausanne-Sport, er fjárfestir í siglingarliði og yfirtaka hans á hjólaliðinu Team Sky stendur yfir.

Ratcliffe ólst upp sem stuðningsmaður Manchester United en hann er með ársmiða á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea.

Chelsea er ekki til sölu samkvæmt opinberum tilkynningum félagsins en Roman Abramovich, eigandi félagsins, er sífellt minna í Lundúnum og hefur hætt við áætlanir sínar um að ráðast í endurgerð á Stamfod Bridge.

Samkvæmt frétt The Times vill Abramovich fá 2,5 milljarða punda fyrir félagið en þá upphæð vill Ratcliffe ekki greiða.

Roman Abramovich hefur ekki látið sjá sig á Stamford Bridge síðan í maí 2018 vísir/getty

Ratcliff er metinn á 21 milljarð punda svo hann ætti að eiga efni á að greiða uppgefna upphæð, en þar sem ráðast þarf í endurgerð á Stamford Bridge fyrr en síðar vill Ratcliffe ekki greiða svo hátt verð. Ef miðað er við nýja völlinn hjá Tottenham sem verður vígður í byrjun apríl þá kostar slíkt verkefni hátt í milljarð punda.

Forbes tímaritið mat Chelsea á 1,44 milljarð punda á síðasta ári en endurskoðendastofan KPMG segir virði félagsins 1,26 milljarð punda.

Abramovich keypti félagið á 140 milljónir punda árið 2003 en hefur sett 1,17 milljarð punda inn í félagið í formi lána.

Rússinn hefur ekki mætt á einn einasta heimaleik Chelsea á tímabilinu. Hann lenti í vandræðum með vegabréfsáritun sína í sumar en er sagður eiga ísraelskt vegabréf sem heimilar honum að ferðast til Bretlandseyja án vandræða í allt að sex mánuði í senn. Því ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að Abramovich heimsæki Stamford Bridge.


Tengdar fréttir

Segir að höfuðtilgangur Ratcliffe sé verndun villta laxastofnsins

Framkvæmdastjóri veiðiklúbbsins Strengs í Vopnafirði segir að höfuðtilgangur Jim Ratcliffe, með kaupum á jörðum og veiðiréttindum í Vopnafirði, sé verndun villta laxastofnsins. Með kaupum á Streng nær Ratcliffe yfirráðum yfir tveimur eftirsóttustu laxveiðiám landsins, Selá og Hofsá, í Vopnafirði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.