Enski boltinn

Chelsea í hóp með Grímsstöðum á Fjöllum og laxveiðijörðum í Vopnafirði?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Áætlanir um endurgerð Stamford Bridge, sem hafa verið settar á hilluna, gerðu ráð fyrir kostnaði upp á einn milljarð punda
Áætlanir um endurgerð Stamford Bridge, sem hafa verið settar á hilluna, gerðu ráð fyrir kostnaði upp á einn milljarð punda mynd/bbc
Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe hefur áhuga á að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea samkvæmt The Times. Chelsea myndi bætast í ríkulegan hóp eigna Ratcliffe sem inniheldur meðal annars laxveiðijarðir á Norðausturlandi og veiðiklúbbin Streng.

Ratcliffe á fjölda laxveiðijarða í Vopnafirði, Grímsstaði á Fjöllum og mikinn meirihluta í veiðiklúbbnum Streng, sem hefur tvær eftirsóttustu laxveiðiár landins á leigu.

Hann er ríkasti maður Bretlandseyja og einn af ríkari mönnum heims.

Jim Ratcliffe.vísir/getty
Síðasta ár hefur Ratcliffe fjárfest í hinum ýmsu íþróttafélögum, hann á svissneska liðið FC Lausanne-Sport, er fjárfestir í siglingarliði og yfirtaka hans á hjólaliðinu Team Sky stendur yfir.

Ratcliffe ólst upp sem stuðningsmaður Manchester United en hann er með ársmiða á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea.

Chelsea er ekki til sölu samkvæmt opinberum tilkynningum félagsins en Roman Abramovich, eigandi félagsins, er sífellt minna í Lundúnum og hefur hætt við áætlanir sínar um að ráðast í endurgerð á Stamfod Bridge.

Samkvæmt frétt The Times vill Abramovich fá 2,5 milljarða punda fyrir félagið en þá upphæð vill Ratcliffe ekki greiða.

Roman Abramovich hefur ekki látið sjá sig á Stamford Bridge síðan í maí 2018vísir/getty
Ratcliff er metinn á 21 milljarð punda svo hann ætti að eiga efni á að greiða uppgefna upphæð, en þar sem ráðast þarf í endurgerð á Stamford Bridge fyrr en síðar vill Ratcliffe ekki greiða svo hátt verð. Ef miðað er við nýja völlinn hjá Tottenham sem verður vígður í byrjun apríl þá kostar slíkt verkefni hátt í milljarð punda.

Forbes tímaritið mat Chelsea á 1,44 milljarð punda á síðasta ári en endurskoðendastofan KPMG segir virði félagsins 1,26 milljarð punda.

Abramovich keypti félagið á 140 milljónir punda árið 2003 en hefur sett 1,17 milljarð punda inn í félagið í formi lána.

Rússinn hefur ekki mætt á einn einasta heimaleik Chelsea á tímabilinu. Hann lenti í vandræðum með vegabréfsáritun sína í sumar en er sagður eiga ísraelskt vegabréf sem heimilar honum að ferðast til Bretlandseyja án vandræða í allt að sex mánuði í senn. Því ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að Abramovich heimsæki Stamford Bridge.


Tengdar fréttir

Segir að höfuðtilgangur Ratcliffe sé verndun villta laxastofnsins

Framkvæmdastjóri veiðiklúbbsins Strengs í Vopnafirði segir að höfuðtilgangur Jim Ratcliffe, með kaupum á jörðum og veiðiréttindum í Vopnafirði, sé verndun villta laxastofnsins. Með kaupum á Streng nær Ratcliffe yfirráðum yfir tveimur eftirsóttustu laxveiðiám landsins, Selá og Hofsá, í Vopnafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×