Innlent

Ratcliffe herðir tökin á jörðum í Vopnafirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Jim Ratcliffe.
Jim Ratcliffe. vísir/getty

Jim Ratcliffe, breski auðkýfingurinn sem ásælst hefur jarðir á Norðausturlandi ásamt viðskiptafélögum sínum, hefur keypt eignarhaldsfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni.

Með þessum kaupum á auðjöfurinn 86,67 prósenta hlut í veiðifélaginu Streng ehf., sem er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu. Strengur á sex jarðir í Vopnafirði að hluta eða að öllu leyti. Einnig nýlegt og mjög veglegt veiðihótel við Selá.

Tilkynnt var um kaupin á fundi í veiðifélaginu í síðustu viku. Gísli Stefánsson, framkvæmdastjóri Strengs, staðfesti að þetta hefði átt sér stað en vildi að öðru leyti ekki ræða þessi viðskipti.

Jim Ratcliffe hefur á síðustu árum eignast fjölda jarða og lóða á Norðausturlandi með það að yfirlýstu markmiði að komast yfir laxveiðiréttindi. Annar stór jarðakaupandi í Vopnafirði hefur verið fjárfestirinn Jóhannes Kristinsson. Jóhannes var viðskiptafélagi Pálma Haraldssonar í Fons í byrjun aldarinnar. Jóhannes átti einkahlutafélagið Grænaþing sem átti rúmlega helminginn, 52,67 prósent, í veiðifélaginu Streng. Jóhannes selur allt hlutaféð til Rat­cliffes.

Ratcliffe átti fyrir 34 prósent í veiðifélaginu Streng í gegnum félagið Fálkaþing. Hagnaður Strengs í fyrra nam einni milljón króna samkvæmt ársreikningi. Þar kemur einnig fram að eignir félagsins séu um 955 milljónir króna og eigið fé um 400 milljónir.

Við Kaup Ratcliffes á öllum eignarhlut Jóhannesar í Grænaþingi eignast hann sem sagt hlut í enn fleiri jörðum en hann hefur áður átt í Vopnafirði en þær voru um 30 fyrir. Grænaþing á helminginn í jörð­inni Fremri-Nýp, fimmtung í Hauksstöðum og 42,86 prósenta hlut í jörðinni Þorvaldsstöðum.

Heimamenn eystra hafa áður lýst því hvernig tilraunir breska auðkýfingsins til að kaupa jarðir á svæðinu hafi framkallað deilur innan fjölskyldna um hvort selja eigi jarðirnar eða ekki. Oftar en ekki hafi lögfræðiskrifstofur eða fasteignasölur sent eigendum jarða kauptilboð frá ónefndum erlendum aðila.

Ekki náðist í Jóhannes Kristinsson við vinnslu fréttarinnar og því er ekki vitað nákvæmlega hversu margar jarðir hafi skipt um hendur milli hans og Ratcliffes. Ekki er heldur vitað hver verðmiðinn á Grænaþingi ehf. var í þessari sölu. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.