Erlent

Fyrsti hluti tilraunaskots SpaceX gekk að óskum

Kjartan Kjartansson skrifar
Geimferja SpaceX sem á einn daginn að flytja menn er nú á leið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðu eftir vel heppnað geimskot í morgun. Fyrsta þrep eldflaugarinnar lenti heilu og höldnu aftur á jörðinni skömmu eftir geimskotið. Ferjan á að komast á áfangastað á morgun.

Crew Dragon-geimferjan er hönnuð til að flytja geimfara en SpaceX er með samning við bandarísku geimvísindastofnunina NASA um mannaðar geimferðir. Bandaríkjamenn hafa ekki geta skotið mönnum út í geim frá því að þeir lögðu síðustu geimskutlunni árið 2011 og hafa síðan þurft að reiða sig á Rússa um ferðir til og frá geimstöðinni.

Farið hóf sig á loft frá Canaveral-höfða á Flórída klukkan 7:49 að íslenskum tíma í morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Um borð var tilraunabrúða sem hefur fengið nafnið Ripley í höfuðið á aðalpersónu geimhryllingsmyndarinnar „Geimverann“ (e. Alien).

Þó að geimskotið hafi gengið að óskum í morgun eru mikilvægustu hlutar tilraunaflugsins enn eftir: tengingin við Alþjóðlegu geimstöðina á morgun og lendingin á jörðinni á föstudag. Búist er við því að Dragon-geimferjan leggi að geimstöðinni klukkan 11:00 að íslenskum tíma á morgun og lendi aftur á jörðinni klukkan 13:45 á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×