Erlent

Drekinn kominn aftur til jarðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Crew Dragon leggur hér af stað frá geimstöðinni.
Crew Dragon leggur hér af stað frá geimstöðinni. AP/NASA
Geimfar SpaceX, sem til stendur að nota til að skjóta mönnum út í geim er lent á jörðinni aftur eftir fyrsta tilraunaflug farsins. Geimfarinu, sem kallast Crew Dragon, var skotið á loft frá Flórída á laugardagsmorgun og var því flogið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar þar sem það hefur verið undanfarna daga.

Miðað við fyrstu viðbrögð starfsmanna Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, virðist sem allt hafi farið vel við lendinguna.

Þetta er fyrsta tilraunaflug Crew Dragon. Farið var því ekki mannað að öðru leyti en að þar um borð er gína sem kallast Ripley, í höfuðið á persónu Sigourney Weaver í Alien myndunum. Gínan er af sömu gerðinni og Starman, sem SpaceX sendi í ævintýralegt ferðalag í fyrra.

Ripley er búin fjölmörgum skynjurum sem nota á til að kanna mögulegt álag á geimfara við ferðir með Crew Dragon.

Um borð var einnig lítil tuskubrúða í lagi jarðarinnar sem kallast Litla jörð.

SpaceX hefur gert samning við NASA um mannaðar geimferðir. Bandaríkjamenn hafa ekki geta skotið mönnum út í geim frá því að þeir lögðu síðustu geimskutlunni árið 2011 og hafa síðan þurft að reiða sig á Rússa um ferðir til og frá geimstöðinni.

Vonast er til þess að SpaceX geti skotið geimförum út í geim seinna á þessu ári.

Crew Dragon geimfarið lenti í Atlantshafinu nú fyrir skömmu þar sem björgunaraðilar á skipum biðu eftir því.


Tengdar fréttir

SpaceX tekur stórt skref í átt að mönnuðum geimferðum

Til stendur að skjóta Crew Dragon geimfari fyrirtækisins á loft frá Flórída í fyrramálið. Farið verður ekki mannað þar sem að um tilraunaskot er að ræða en því verður þó flogið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og þar mun farið tengjast geimstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×