Enski boltinn

„Hetjan sem gat flogið“ á forsíðum ensku blaðanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bresku blöðin minnast markvarðarins Gordon Banks á forsíðum sínum í morgun en Banks lést í gær 81 árs að aldri.

Gordon Banks var markvörðurinn í heimsmeistaraliði Englands frá 1966 og ótrúleg markvarsla hans á móti Pele á HM 1970 var valin markvarsla aldarinnar.

Pele er einn þeirra sem tjáði sig um Gordon Banks í ensku blöðunum en það gerði einnig Gianluigi Buffon sem hélt marki Paris Saint Germain hreinu á Old Trafford í gærkvöldi.

Gordon Banks fæddist árið 1937 en hans fótboltaferill var frá 1958 til 1978. Hann lék 73 landsleiki fyrir England frá 1962 til 1972. Stærsta hluta ferils síns var hann hjá Leicester City (1959-1967) og Stoke City (/1967-1973) en hann endaði feril sinn í Bandaríkjunum. 

Daily Mirror á eina flottustu forsíðuna en þar er stór mynd af Gordon Banks að verja frá Pele og fyrirsögnin er „Hetjan sem gat flogið“.

Gordon Banks var frábær markvörður en hann var einnig frábær manneskja og mikill heiðursmaður sem var alltaf sérstaklega vel liðinn hvert sem hann fór.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af forsíðum ensku blaðanna í morgun þar sem þau minnast þessa merka markvarðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.