Innlent

Kaldast á landinu í útjaðri Reykjavíkur, 21 stigs frost

Kristján Már Unnarsson skrifar
Úr Víðidal í Reykjavík í dag. Elliðaár í forgrunni.
Úr Víðidal í Reykjavík í dag. Elliðaár í forgrunni. Vísir/KMU.
Mesta frost á landinu í nótt og í morgun hefur mælst á tveimur veðurstöðvum í jaðri Reykjavíkur, á Sandskeiði og á nýrri mælistöð í hesthúsahverfinu í Víðidal við Elliðaár. Á Sandskeiði mældist mest frost í nótt -21,5 °C og í Víðidal -21,3 °C, samkvæmt vef Veðurstofunnar. Á Þingvöllum mældist frostið -19,5 °C. 

Lítið hefur dregið úr frostinu með morgninum. Mælirinn í Víðidal sýndi -20,5 °C klukkan 10 og -19,9 °C klukkan 11. 

Sjaldgæft er að á Reykjavíkursvæðinu mælist mesti kuldinn á landinu. Á einni stöð á hálendinu hefur þó mælst kaldara í morgun, í Veiðivatnahrauni, -21,9 °C. 

Sjá mátti álftir á Elliðaánum í frostinu í Víðidal í dag. Seláshverfið í baksýn og enn fjær Esja, Úlfarsfell og Móskarðshnjúkar.Vísir/KMU.
Mildast á landinu í morgun hefur verið í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum. Í Vestmannaeyjabæ var frostið -1,3 í morgun og austanlands voru -1,9 °C á Vattarnesi. 

Veðurstofan spáir frosti á öllu landinu í dag, -5 til -15 stig. Á morgun er spáð stífri austanátt sunnanlands og snjókomu með köflum og minnkandi frosti, en hægari vindi og þurru fyrir norðan með talsverðu frosti þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×