Innlent

Janúar blés heitu og köldu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hlýindi einkenndu byrjun janúar en fyrir miðjan mánuðinn tóku ís og snjór völdin.
Hlýindi einkenndu byrjun janúar en fyrir miðjan mánuðinn tóku ís og snjór völdin. Vísir/Vilhelm

Meðalhiti í Reykjavík var einni gráðu ofan meðallags seinni hluta 20. aldar í janúar. Mánuðurinn var sagður sérlega tvískiptur þar sem hitinn í fyrri hluta hans var langt yfir meðallagi um allt landið en seinni hlutinn var mun kaldari.

Í samantekt Veðurstofu Íslands á tíðarfari í janúar kemur fram að auk hlýindanna í byrjun mánaðar hafi verið snjólétt víðast hvar. Óvenjuhlýtt hafi verið fram til 12. janúar en þá tók við svalara veður, ekki síst síðustu sex daga mánaðarins.

Þrátt fyrir að meðalhitinn í Reykjavík hafi verið 0,5°C og einni gráðu yfir meðaltali áranna 1961 til 1990 var hann 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,9°C, 1,3 gráðum yfir meðallagi seinni hluta 20. aldar en 0,8 stigum undir síðasta áratugs. Á Stykkishólmi var meðalhitinn 0,5°C og 0,8°C á Höfn í Hornafirði.

Meðalhitinn á landinu öllu var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en undir meðallagi síðustu tíu ára. Mest var frávikið á Þingvöllum þar sem hitinn var 1,9 stigum undir meðallagi síðasta áratugsins en minnst á Keflavíkurflugvelli þar sem hitinn var við meðallagið.

Nýtt dægurhámarksmet var sett í janúar þegar 18,9 stig mældust á Dalatanga 9. janúar. Hæsti hiti sem mælst hefur í janúar var 19,6 stig á sama stað árið 2000. Mesta frost mældist -27,5°C á Möðrudal 27. janúar.

Úrkoma í Reykjavík var 35% umfram meðallag 1961 til 1990, alls 102,9 millímetrar. Á Akureyri var úrkoman 23% umfram meðallag, 67,9 millímetrar. Fimm fleiri úrkomudagar mældust í janúar en í meðalári í Reykjavík, alls átján. Aftur á móti var einum rigningardegi færra á Akureyri en í meðalári, alls tíu.

Þrettán alhvítir dagar voru í Reykjavík í janúar en það er einum degi færra en meðaltal 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar í meðaltali, alls tuttugu og tveir dagar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.