Erlent

2018 var fjórða hlýjasta árið frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðeins árin 2015, 2016 og 2017 voru hlýrri en árið í fyrra samkvæmt mælingum NASA og NOAA.
Aðeins árin 2015, 2016 og 2017 voru hlýrri en árið í fyrra samkvæmt mælingum NASA og NOAA. NASA
Meðalhitinn á jörðinni var sá fjórði hæsti frá því að mælingar hófust í fyrra. Síðustu fimm ár eru nú þau hlýjustu í tæplega 140 ára mælingarsögunni og átján af nítján hlýjustu árunum hafi verið á þessari öld.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA og Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) kynntu niðurstöður mælinga sinna sameiginlega í gær. Hitinn var meira en einni gráðu yfir meðaltali síðari hluta 19. aldarinnar þegar menn byrjuðu fyrst að dæla gróðurhúsalofttegundum út í lofthjúp jarðar af alvöru. Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnuninni innan við 1,5-2°C frá því tímabili. Miðað við núverandi losun manna gæti hlýnunin náð 3°C eða meira fyrir lok aldarinnar.

Síðustu tvö ár hafa ekki verið eins hlý og metárið 2016. Það ár lagðist veðurfyrirbrigðið El niño í Kyrrahafinu ofan á manngerða hlýnun og magnaði hana upp. Andstæðan, la niña, hafði áhrif til kólnunar á meðalhita jarðar í fyrra áður en veikur el niño gerði vart við sig undir lok árs, að sögn New York Times.

Zeke Hausfather, loftslagsvísindamaður hjá Berkeley Earth, sjálfstæðum loftslagsrannsóknahóp, telur að 2019 verði líklega annað hlýjasta árið frá því að mælingar hófust með hjálp el niño.

„Við erum ekki lengur að tala um aðstæður þar sem hnattræn hlýnun er eitthvað sem gerist í framtíðinni. Hún er hér. Hún er núna,“ sagði Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknastofnunar NASA sem heldur utan um hitamælingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×