Erlent

Grænlandsjökull bráðnar mun hraðar en menn héldu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ísjaki strandaður við Innaarsuit á Grænlandi.
Ísjaki strandaður við Innaarsuit á Grænlandi. EPA/Magnus Kristensen
Grænlandsjökull er að bráðna mun hraðar en menn héldu, en ný rannsókn sýnir að hraði bráðnunarinnar hefur fjórfaldast frá árinu 2003. Jakarnir sem brotna úr jöklunum á Grænlandi verða æ stærri og þeir bráðna síðan í framhaldinu í Atlantshafinu sem veldur hækkun sjávar.

Nýja rannsóknin leiðir í ljós að bráðnunin er mest í suðvesturhluta Grænlands, á svæði sem er að mestu án jökla. Þetta, segir í umfjöllun Guardian um málið, bendir til þess að bráðnunin skýrist fyrst og fremst af hækkandi hitastigi, yfirborð jöklanna bráðni því hraðar og vatnið rennur í fossandi ám og lækjum út í sjó, sem enn eykur á hækkun sjávar.



Sjá einnig: Bráðnun á Suðurskautslandinu hefur sexfaldast á fjörutíu árum




Michael Bevis, prófessor við Ohio háskóla í Bandaríkjunum, sem leiddi rannsóknina, segir í samtali við Guardian að nú sé staðan orðin sú að ekki sé hægt að snúa ástandinu við, aðeins sé hægt að aðlagast breyttu umhverfi og reyna að halda í horfinu.

„Það eina sem við getum gert er að aðlagast og draga úr frekari hlýnun. Það er of seint að sleppa við áhrifin. Þetta mun valda aukinni sjávarhækkun,“ sagði Bevis.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×