Erlent

Vinstriflokkurinn segist ekki ætla að greiða atkvæði með Löfven

Atli Ísleifsson skrifar
Jonas Sjöstedt er formaður sænska Vinstriflokksins.
Jonas Sjöstedt er formaður sænska Vinstriflokksins. Getty
Jonas Sjöstedt, formaður sænska Vinstriflokksins, segir að flokkurinn muni ekki greiða atkvæði með því að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna, verði áfram forsætisráðherra landsins.

Þetta þýðir að ekki er víst að nokkuð verði af ríkisstjórn Jafnaðarmanna og Græningja sem Miðflokkurinn og Frjálslyndir ætla sér að verja vantrausti. Greint var frá því um helgina að flokkarnir hafi náð saman um myndun nýrrar stjórnar.

Sjöstedt greindi frá afstöðu sinni og Vinstriflokksins eftir fund hans og þingforsetans Andreas Norlén, en þingforsetinn fundar í dag með leiðtogum allra flokka. Búist er við að hann muni tilnefna einn þeirra, líklegast Löfven, sem næsta forsætisráðherra síðar í dag og mun þingið greiða atkvæði um hann á miðvikudag.

Vinstriflokkurinn komist ekki á áhrifastöðu

Í samstarfsyfirlýsingu  Jafnaðarmanna, Græningja, Miðflokksins og Frjálslyndra, sem birt var um helgina, er tekið fram að Vinstriflokkurinn skuli ekki hafa nein pólitísk áhrif á stefnu stjórnarinnar á kjörtímabilinu. Sjöstedt segist hins vegar ekki geta sætt sig við slíkt og mun flokkurinn því greiða atkvæði gegn Löfven.

Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins.EPA/HENRIK MONTGOMERY
Möguleg ríkisstjórn Jafnaðarmanna, Græningja, Miðflokksins og Frjálslyndra er ekki með meirihluta á þingi og yrði því háð því að aðrir flokkar myndi verja hana vantrausti. Ólíklegt er að sá stuðningur kæmi frá hægrivængnum og þyrfti hún því að treysta á þingmenn Vinstriflokksins.



Til í frekari viðræður

Sjöstedt segist opinn fyrir því að semja frekar við Löfven til að tryggja einhvers konar áhrif Vinstriflokksins og segist Löfven sömuleiðis vera reiðubúinn til viðræðna við Vinstriflokkinn. Segir Löfven að Vinstriflokkurinn yrði ekki settur í sama flokk og Svíþjóðardemókratar, sem reka harða stefnu í innflytjendamálum.

Miðflokkurinn og Frjálslyndir hafa lagt áherslu á að tryggja að Svíþjóðardemókratar og Vinstriflokkurinn – flokkarnir yst á hægri/vinstriás stjórnmálanna – komist ekki í áhrifastöðu við myndun nýrrar stjórnar.

127 dagar eru nú liðnir frá kosningunum í Svíþjóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×