Erlent

Mið- og vinstriflokkar sagðir hafa náð saman í Svíþjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins.
Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins. EPA/HENRIK MONTGOMERY
Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar, Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn í Svíþjóð eru sagðir hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar í Svíþjóð.  Lítur því út fyrir að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, muni áfram gegna forsætisráðherraembættinu.

Samkomulagið verður til umræðu innan þingflokka flokkanna fjögurra í dag og um helgina.

Þingforsetinn Andreas Norlén hyggst funda með flokksleiðtogum á mánudag og í kjölfar þess tilnefna nýjan forsætisráðherra sem þingið mun svo greiða atkvæði um. Takist þinginu ekki að samþykkja nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum verður lögum samkvæmt að boða til nýrra kosninga. Næsta atkvæðagreiðsla, sú þriðja í röðinni, er fyrirhuguð miðvikudaginn næsta, 16. janúar.

Langur aðdragandi

Fjórir mánuðir eru nú liðnir frá þingkosningum í landinu og hafa stjórnarmyndunarviðræður í landinu aldrei tekið lengri tíma. Þingið hefur áður hafnað tillögu þingforsetans um að Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, og Löfven verði næsti forsætisráðherra.

Löfven stýrði minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja á síðasta kjörtímabili – stjórn sem Vinstriflokkurinn varði vantrausti. Sænskir fjölmiðlar greina frá því að samkomulag hafi nú náðst um að ný stjórn Löfven njóti stuðnings Miðflokksins og Frjálslyndra

Annie Lööf er formaður sænska Miðflokksins.Getty/MICHAEL CAMPANELLA

Endalok bandalags borgaralegu flokkanna

Verði þetta raunin markar það formlega endalok bandalags borgaralegu flokkanna fjögurra (Alliansen) – Moderaterna, Kristilegra demókrata, Miðflokksins og Frjálslyndra.

Ástæða þess að ekkert hefur gengið að mynda nýja stjórn í Svíþjóð eru deilur flokkanna um hlutverk Svíþjóðardemókrata, sem hlutu um 18 prósent þingsæta. Flokkurinn rekur harða stefnu í innflytjendamálum og hafa vinstriflokkarnir, Miðflokkurinn og Frjálslyndir lagt mikla áherslu að koma í veg fyrir að flokkurinn komist í áhrifastöðu.

Heimildarmaður Aftonbladet greinir frá því að Jafnaðarmenn hafi gengið að ýmsum kröfum Miðflokksins og Frjálslyndra til að tryggja myndun nýrrar stjórnar, meðal annars breytingar á sviði vinnumarkaðar, húsnæðismála og menntamála.


Tengdar fréttir

Sænska þingið hafnaði Löfven

Alger pattstaða er á sænska þinginu þar sem ekkert hefur gengið að ná saman um nýja stjórn sem njóti stuðnings meirihluta þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×