Erlent

Forseti Kína hótar Taívönum

Kjartan Kjartansson skrifar
Xi forseti ávarpaði Taívani
Xi forseti ávarpaði Taívani Vísir/EPA
Xi Jinping, forseti Kína, segir að Taívan verði sameinað Kína með einum hætti eða öðrum og áskildi sér rétt til að beita hervaldi. Lýsti hann sjálfstæði Taívana sem „andstreymi sögunnar og öngstræti“.

Í ávarpi í tilefni af því að fjörutíu ár eru liðin frá bættum samskiptum Kína og Taívan sagði Xi taívönsku þjóðinni að sætta sig við að þeir „yrðu og muni“ sameinast Kína aftur. Taívan hefur verið með heimastjórn frá 1950 og er í reynd sjálfstætt þrátt fyrir að hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði frá Kína. Kínverjar líta á Taívan sem hluta af Kína.

Xi sagði Taívönum að sjálfstæði leiddi aðeins til „harðinda“. Ríkisstjórn hans myndi aldrei líða nokkurs konar sjálfstæðistilburði á eyjunni. Sameining væri óumflýjanlegt skilyrði „endurnýjunar kínversku þjóðarinnar“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Endurtók forsetinn fyrri hótanir um að Kínverjar gætu beitt hervaldi reyni utanaðkomandi aðilar eða sjálfstæðissinnar á Taívan að koma í veg fyrir „friðsama sameiningu“.

Áður en Xi flutti ræðu sina hafði Tsai Ing-wen, forseti Taívan, sagði að Kínverjar yrðu að sætta sig við tilvist eyríkisins og neyta friðsamlegra leiða til að ná sáttum. Þeir ættu að virða vilja 23 milljóna íbúa eyjarinnar til að lifa við frelsi og lýðræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×