Erlent

Trump minnir Romney á flokksskírteinið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mitt Romney er nýr öldungardeildarþingmaður repúblikana í Utah.
Mitt Romney er nýr öldungardeildarþingmaður repúblikana í Utah. Getty/Bloomberg
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur svaraði harorðri grein Mitt Romney þar sem forsetaframbjóðandinn fyrrverandi fór hörðum orðum um Trump og véfengdi siðferðisþrek Trump. Forsetinn minnti Romney á að þeir væru meðlimir í sama stjórnmálaflokki.

Romney rekur sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Utah-ríki á morgun og skrifaði af því tilefni skoðanagrein sem birtist í Washington Post á nýársdag þar sem hann sagði forsetatíð Trump hafa tekið djúpa dýfu síðustu mánuði. Hét hann því að gagnrýna Trump óspart, teldi hann tilefni til þess.

„Nú byrjar Romney, svo snöggur til. Spurningin er, er hann Flake? Ég vona ekki. Myndi miklu frekgar vilja að Mitt einbeiti sér að öryggi landamæranna og að mörgum öðrum hlutum þar sem hann getur verið gagnlegur. Ég vann stórt, hann ekki. Hann ætti að samgleðjast öllum Repúblikönum. Vertu LIÐSmaður og SIGRAÐU,“ skrifar Trump á Twitter.

Vísaði hann þar til öldungardeildarþingmannsinns Jeff Flake sem missir sæti sitt á þingi á morgun. Hefur hann verið einn af hörðustu gagnrýnendum Trump innan repúblikanaflokksins. Ákvað hann á síðasta ári að sækjast ekki eftir endurkjöri og vill Trump meina að Flake hafi neyðst til þess að hætta þar sem gagnrýni hans á forsetann hafi ekki farið vel í kjósendur flokksins í Arizona, heimaríki Flake.

Romney og Trump hafa ýmist rifist eða grafið stríðsöxina á undanförnum árum. Í kosningabaráttunni árið 2016 lýsti Romney yfir andstöðu sinni við framboð Trump en virtist mildast í afstöðu sinni gagnvart Trump eftir að hann var kjörinn forseti. Snæddu þeir meðal annars saman skömmu eftir kosningarnar árið 2016 og var meðal annars rætt um að Romney, sem tapaði fyrir Barack Obama í forsetakosningunum árið 2012, yrði utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×