Erlent

Þrettán ríkisborgarar Kanada handteknir í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Meng Wanzhou yfirgefur heimili sitt í Vancouver.
Meng Wanzhou yfirgefur heimili sitt í Vancouver. Getty/Bloomberg
Yfirvöld Kanada segja að minnst þrettán borgarar ríkisins hafi verið handteknir í Kína síðan Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei, var handtekin í Kanada að beiðni Bandaríkjanna. Meng var handtekin þann 1. desember og berst hún nú gegn því að vera framseld til Bandaríkjanna þar sem talið er að hún sé grunuð um brot á viðskiptaþvingunum gegn Íran og jafnvel fjársvik.

Meng, sem gengur laus gegn tryggingu, heldur til í annari af tveimur íbúðum sem hún á í Vancouver.

Af þeim þrettán Kanadamönnum sem hafa verið handteknir í Kína er búið að sleppa minnst átta, samkvæmt Reuters, sem vitnar í yfirlýsingu frá ríkisstjórn Kanada. Ekki hefur verið gefið upp hvort einhverjir hafi verið ákærðir og þá fyrir hvað.



Fyrir yfirlýsinguna var einungis búið að opinbera handtökur þriggja Kanadamanna í Kína. Þeir Michael Kovrig og Michael Spavor sitja nú í fangelsi í Kína.

Ríkisstjórn Kanada hefur sagt að engin tengsl séu á milli handtakanna í Kína og handtöku Meng. Erindrekar, fyrrverandi erindrekar og sérfræðingar eru þó ekki sannfærðir og óttast að um hefndaraðgerðir sé að ræða.

Yfirvöld Kína hafa sömuleiðis ekki beintengt handtökurnar við handtöku Meng. Kínverjar hafa þó krafist þess að henni verði sleppt úr haldi og hafa hótað ótilgreindum afleiðingum, verði það ekki gert.


Tengdar fréttir

Trump gæti leyst Huawei-stýru úr haldi

Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei, var látin laus gegn tryggingu í Kanada í gær. Ellefu dagar eru nú liðnir frá því hún var handtekin, að beiðni Bandaríkjamanna, grunuð um að hafa afvegaleitt banka um ítök Huawei í Íran og þar með þá í hættu á því að brjóta gegn viðskiptaþvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×