Erlent

Þriðji Kanadamaðurinn í haldi í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Sendiráð Kanada í Peking.
Sendiráð Kanada í Peking. AP/Andy Wong
Yfirvöld Kína eru sögð hafa handtekið þriðja Kanadamanninn á stuttum tíma. Handtökurnar koma allar í kjölfar þess að yfirvöld Kanada handtóku fjármálastjóra og dóttur stofnanda kínverska fyrirtækisins Huawei að beiðni Bandaríkjanna. Ekki liggur fyrir hver maðurinn, eða konan, er né hvers vegna hann var handtekinn. Áður höfðu Kínverjar sagt að hinir tveir hefðu verið handteknir vegna ógnar gegn öryggi Kína.

Samkvæmt CBC í Kanada komust yfirvöld landsins að handtökunni í gær og þá í gegnum aðila sem þekkir þann sem var handtekinn. Yfirvöld Kanada hafa engin skilaboð fengið frá Kína vegna málsins og talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína sagðist ekki hafa heyrt af handtökunni í dag.



Hinir tveir sem hafa verið handteknir heita Michael Spavor og Michael Kovrig.

Sjá einnig: Tveir Kanadamenn í haldi í Kína



Fyrri handtökurnar hafa verið reknar til þess að Meng Wanzhou var handtekin í Kanada í byrjun mánaðarins og standa nú yfir réttarhöld um hvort hún verði framseld til Bandaríkjanna. Nágrannar Kanada gruna hana um að hafa brotið gegn viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum sem beitt hefur verið gegn Íran.

Kínverjar hafa gagnrýnt Kanadamenn harðlega í kjölfarið og meðal annars sakað þá um að brjóta á mannréttindum Meng.

Samkvæmt National Post, sem sagði fyrst frá handtökunni, hafa embættismenn í Kanada ekki viljað tengja nýjustu handtökuna við deilur ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×