Tveir unglingar sem skutu skólafélaga sinn til bana og særðu átta aðra í framhaldsskóla í Denver í Bandaríkjunum voru formlega ákærðir í dag. Dómarinn í málinu hefur úrskurðað að leynd skuli ríkja um gögn málsins.
Ungmennin eru 18 og 16 ára gömul. Þau eru sökuð um að hafa hafið skothríð í tveimur kennslustofum í raungreinaskóla í Highlands Ranch í Colorado í Bandaríkjunum 7. maí. Yngri sakborningurinn skilgreinir sig sem karlmann en á dagskrá dómstólsins var hann skráður undir kvennafni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Réttarhöldin fara fram fyrir luktum dyrum en áður en það var ákveðið kom fram að yngri sakborningurinn hefði verið ákærður fyrir morð að yfirlögðu ráði. Réttað verði yfir honum sem fullorðnum einstaklingi.
Talið er að ungmennin hafi stolið skammbyssum sem þau notuðu við árásina frá foreldrum annars þeirra. Foreldrarnir hafi keypt skotvopnin löglega.
Unglingar sem skutu skólafélaga í Colorado ákærðir

Tengdar fréttir

Minnst sjö skotnir í skóla í Colorado
Minnst sjö eru særðir eftir að tveir aðilar hleyptu af skotum í skóla í úthverfi Denver fyrr í kvöld.

Einn látinn eftir skotárásina í Colorado
Einn er látinn og átta eru særðir eftir að tveir nemendur í menntaskóla í Colorado skutu á samnemendur sína í gær.