Erlent

Ekkert bólar á stórum áheitum til Notre Dame

Atli Ísleifsson skrifar
Eldurinn olli stórkostlegu tjóni í dómkirkjunni þar sem stærstur hluti þaksins féll saman, auk þess að kirkjuspíran, sem var frá átjándu öld, hrundi.
Eldurinn olli stórkostlegu tjóni í dómkirkjunni þar sem stærstur hluti þaksins féll saman, auk þess að kirkjuspíran, sem var frá átjándu öld, hrundi. Getty
Ekkert fjármagn hefur enn skilað sér frá þeim frönsku auðmönnum og fyrirtækjum sem hétu því að leggja háar fjárhæðir til uppbyggingar dómkirkjunnar Notre Dame í París eftir stórbrunann 15. apríl síðastliðinn.

Þetta er haft eftir talsmönnum kirkjunnar og framkvæmdaaðila. Í frétt AP segir frá því að það séu smærri framlög frá frönskum og bandarískum einstaklingum sem sé uppistaðan í fyrstu greiðslunni úr sjóði þar sem einkaaðilar gátu lagt inn fé til uppbyggingar kirkjunnar. Fyrsta greiðslan nemur 3,6 milljónum evra, um hálfum milljarði íslenskra króna, en fjármagnið nýtist til að greiða reikninga og laun þeirra 150 verkamanna sem vinna nú að uppbyggingunni.

Vilja vita í hvað peningarnir fara

Eldurinn olli stórkostlegu tjóni í dómkirkjunni þar sem stærstur hluti þaksins féll saman, auk þess að kirkjuspíran, sem var frá átjándu öld, hrundi. Þó tókst að bjarga stærstum hluta listaverkasafns kirkjunnar. Talið er að skammhlaup hafi valdið því að eldurinn kom upp.

„Þeir sem hétu mestu hafa ekki greitt. Ekki sent,“ segir Andre Finot, upplýsingafulltrúi Notre Dame.  Segir hann að auðmennirnir hafi margir gert þá kröfu að vita nákvæmlega í hvað peningar þeirra fara og hvort þeir séu því samþykkir. Ekki að peningarnir fari bara í laun verkamanna.

Eldurinn olli stórkostlegu tjóni í dómkirkjunni þar sem stærstur hluti þaksins féll saman.Getty

Höfrungahlaup

Margir af auðugustu mönnum Frakklands og fyrirtæki hétu á öðrum milljarði evra, 142 milljörðum íslenskra króna, eftir að eldurinn kom upp. Var mikið rætt um nauðsyn þess að endurreisa kirkjuna, sem er eitt helsta kennileiti frönsku höfuðborgarinnar sem milljónir heimsækja á ári hverju.

Francois Pinault hjá Artemis, móðurfélagi Gucci og Saint Laurent, hét 100 milljónum evra og sagði Patrick Pouyanne, stjórnarformaður franska orkurisans Total, að fyrirtækið myndi jafna þá upphæð. Bernard Arnault, stjórnarformaður LVMH, sem á tískumerkin Louis Vuitton og Dior, hét 200 milljónum evra, líkt og Bettencourt Schueller stofnunin, sem á merkið L'Oréal. Ekkert af þessu fé hefur enn skilað sér til þeirra sem halda utan um framkvæmdir að sögn Finot.

AP segir frá því að talsmenn sumra fyrirtækja hafi sagt að vilji sé til að styrkirnir skili sér í listrænni uppbyggingu, sem yrði þá að loknu hreinsunarstarfi og á síðari stigum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×