Í von um að bjarga sér frá falli hefur ÍBV fengið til sín nokkra leikmenn í júlíglugganum, þ.á.m. Gary Martin. Fyrrverandi þjálfari ÍBV, Pedro Hipolito, talaði um að það væri erfitt að fá leikmenn til Eyja. Þorkell Máni Pétursson kaupir ekki þær skýringar.
„Hipolito er bara með afsakanir fyrir hræðilegri ákvarðanatöku. Hann lét tvo varnarmenn sem voru í ÍBV í fyrra fara og nú er verið kaupa miðvörð í þeirra stað. Það er bara út af kjánaskap og rugli í Hipolito. Það sem við erum að sjá núna með Eyjaliðið eru eftirköst af þessari vitleysu. Það hefur ekki orðið svo mikil breyting á leikmannahópnum frá því í fyrra,“ sagði Máni í Pepsi Max-mörkunum í gær.
Máni gagnrýndi nýju þjálfara ÍBV, Ian Jeffs og Andra Ólafsson, hvernig þeir hafa talað í viðtölum eftir að þeir tóku við liðinu.
„Eftir fyrsta leikinn mætir Jeffs í viðtal og segir að leikmenn hafi ekki gert það sem þeir báðu um. Andri mætir núna í viðtal og talar um nákvæmlega það sama. Þetta eru bara afsakanir og það er ekki ástæða til að henda ábyrgð yfir á leikmannahóp sem er ekki með mikið sjálfstraust. Ég skil ekki þessi viðtöl,“ sagði Máni.
Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.