Erlent

Sýrlenskir Kúrdar líta til Frakklands

Samúel Karl Ólason skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, mun funda með sendinefnd sýrlenskra Kúrda á morgun.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, mun funda með sendinefnd sýrlenskra Kúrda á morgun. AP/Michel Euler
Sýrlenskir Kúrdar líta nú til Frakklands eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað að kalla alla hermenn sína frá Sýrlandi. Yfirvöld Frakklands ætla ekki að kalla hermenn sína í Sýrlandi heim að svo stöddu, þar sem ekki er búið að vinna sigur gegn Íslamska ríkinu, eins og Trump hefur haldið fram. Viðræður standa nú yfir milli Bandaríkjanna og Frakklands um framhaldið.

Frakkland er meðlimur í bandalagi Bandaríkjanna gegn ISIS og er með sérsveitarmenn í norðurhluta Sýrlands þar sem þeir berjast með sýrlenskum Kúrdum og öðrum meðlimum samtakanna Syrian Democratic Forces gegn ISIS-liðum.

Sendinefnd SDF mun fara á fund Emmanuel Macron, forseta Frakklands á morgun og ræða stöðuna í Sýrlandi.

Heimildarmaður Reuters innan forsetaembættis Frakklands sagði ljóst að Bandaríkin væru hryggjaliðurinn í bandalaginu gegn ISIS og ákvörðun Trump væri ekki af hinu góða. Þá mun Macron hafa reynt að fá Trump til að skipta um skoðun þegar þær töluðu saman í síma í gær. Fjölmargir aðrir hafa sömuleiðis reynt að snúa forsetanum bandaríska en án árangurs og hefur ákvörðunin verið harðlega gagnrýnd af embættismönnum og þingmönnum í Bandaríkjunum og víðar.

Sjá einnig: „Ef Obama hefði gert þetta, værum við allir brjálaðir“Frakkar hafa mikilla hagsmuna að gæta en ISIS-liðar hafa gert fjölmargar mannskæðar árásir þar í landi. Hundruð franskra ríkisborgara gengu til liðs við hryðjuverkasamtökin og telja yfirvöld að enn stafi mikil ógn af þeim.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Frakklands segir að mikilvægt sé að verja íbúa norðurhluta Sýrlands og að tryggja stöðugleika svæðisins til að tryggja að hryðjuverkasamtökin nái ekki fótfestu þar á nýjan leik og Bandaríkin verði að taka það með í reikninginn.

Þar segir einnig að Frakkar muni tryggja öryggi allra bandamanna bandalagsins á svæðinu og þar á meðal séu sýrlenskir Kúrdar og SDF.

Tyrkir hafa hótað því að gera árásir á yfirráðasvæði SDF og segja sýrlenskir Kúrdar að ákvörðun Trump séu svik við þá. Nú í dag höfðu fjölmiðlar í Tyrklandi eftir Hulusi Akar, varnarmálaráðherra Tyrklands, að Tyrkir hyggðu á árásir gegn Kúrdum.

„Nú er talað um að þeir séu að grafa skurði og göng við Manbij [borg við vesturbakka Efrat] og á austurbakka Efrat. Þeir geta grafið göng og skurði ef þeir vilja, þeir geta farið neðanjarðar ef þeir vilja. Þegar þar að kemur verða þeir grafnir í skurðunum sem þeir grófu. Enginn ætti að draga það í efa.“Fyrr í vikunni sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, að her hans gæti hafið árásir á Kúrda hvenær sem er.


Tengdar fréttir

Erdogan hyggur á frekari árásir á Kúrda

Vísbendingar eru um að Tyrkir hafi verið að færa hergögn og menn að landamærum sýrlenskra Kúrda sem starfa undir regnhlífarsamtökum Syrian Democratic Forces og með stuðningi Bandaríkjanna.

Telja að ákvörðun Trump muni efla ISIS

Forsvarsmenn samtaka Kúrda sem barist hafa gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS í Sýrlandi telja að ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta, um að kalla alla hermenn Bandaríkjanna frá Sýrlandi heim, muni leiða til tómarúms sem geri það að verkum að ISIS geti safnað fyrri kröftum.

Kúrdar í Sýrlandi telja ákvörðun Trump svik

Mikil óvissa ríkir um framhald stríðsins gegn Ríki íslams í Sýrlandi eftir að Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann ætlaði að draga 2.000 manna herlið þaðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.