Erlent

Trump ætlar ekki að refsa Sádum frekar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jamal Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstou Sádi-Arabíu í Istanbúl í síðasta mánuði.
Jamal Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstou Sádi-Arabíu í Istanbúl í síðasta mánuði. AP/Lefteris Pitarakis
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að ekki verði gripið til frekari aðgerða vegna morðs Jamal Khashoggi. Hann segir morðið hafa verið hræðilegt og að Bandaríkin líði ekki slíkt. Trump vísar til þess að þegar sé búið að beita refsiaðgerðum gegn 17 Sádum sem vitað er að komu að morðinu og meðferð líks Khashoggi. Að hans hálfu virðist málinu lokið.

Forsetinn sendi nú fyrir skömmu frá sér yfirlýsingu þar sem hann lofar Sádi-Arabíu sem bandamenn Bandaríkjanna. Yfirlýsingin byrjar á orðunum: „Bandaríkin fyrst! Heimurinn er mjög hættulegur staður!“. Því næst er fjallað um yfirvöld Íran og að þau séu miklir andstæðingar Bandaríkjanna, stuðningsmenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og hryðjuverkasamtakanna Hezbollah í Líbanon, svo eitthvað sé nefnt.

Hann segir Sáda þó hafa verið góða bandamenn gegn Íran og þeir hafi lofað að verja miklu fjármagni til baráttu gegn öfgastarfsemi í Mið-Austurlöndum. Þar að auki segir Trump að það væri heimskulegt að stöðva umfangsmikla vopnasölu Bandaríkjanna til Sádi-Arabíu.

Trump vísar einnig til orða yfirvalda Sádi-Arabíu um að Khashoggi, sem bjó og starfaði sem blaðamaður í Bandaríkjunum og var harður gagnrýnandi konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu, hafi verið „óvinur ríkisins“ og meðlimur í Bræðralagi múslima. Hann segir það þó ekki koma að ákvörðun sinni.

Ekkert hefur þó verið staðfest í þessum ásökunum Sáda gegn Khashoggi.

Þess í stað vísar Trump til þess að Salman konungur og krónprinsinn Mohammad bin Salman, þvertaki fyrir að hafa komið að morðinu með nokkrum hætti.

Þá segir í yfirlýsingu Trump að leyniþjónustur Bandaríkjanna vinni enn úr upplýsingum vegna morðsins, en mögulegt væri að komið gæti í ljós að MBS hafi vitað af morðinu.

„Kannski gerði hann það og kannski ekki,“ segir í yfirlýsingu Trump.

Það er þó þvert á þá niðurstöðu sem CIA, ein af leyniþjónustum Bandaríkjanna, hefur komist að þeirri niðurstöðu að krónprinsinn hafi fyrirskipað morðið. Eftir að fregnir bárust af niðurstöður CIA gaf Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna út yfirlýsingu um að ríkisstjórnin væri ekki komin að sömu niðurstöðu.

Sjá einnig: Ríkisstjórn Trump ekki komin að sömu niðurstöðu og CIA



Í yfirlýsingunni segir Trump einnig að mögulega verði aldrei hægt að fá allar upplýsingar um morðið á hreint.

„Hvort sem er, þá er samband okkar við konungsríkið Sádi-Arabíu,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir að Bandaríkin muni áfram styðja dyggilega við bakið á ríkinu og öðrum bandamönnum í Mið-Austurlöndum.

„Ég skil að það eru þingmenn sem, af pólitískum eða öðrum ástæðum, vilja að ég fari aðra leið og þeim er frjálst að gera það. Ég mun skoða allt sem fært er fyrir mig en bara með hagsmuni og öryggi Bandaríkjanna í huga.“

 

Utanríkisráðherra Íran, Javad Zarif, gagnrýndi yfirlýsingu Trump á Twitter og sagði undarlegt að fyrsta málsgrein hennar innihéldi eingöngu ásakanir gegn Íran.

„Kannski eru líka við okkur að sakast varðandi eldana í Kaliforníu, af því að við hjálpuðum ekki við að raka skógana, alveg eins og Finnar gera?“ skrifaði Zarif.


Tengdar fréttir

Trump vill ekki hlusta á morðupptökuna

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist enga ástæðu sjá til þess að hlusta á hljóðupptöku af morðinu á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi, þar sem innihald hennar myndi ekki hjálpa honum að taka ákvörðun um hvernig hann muni bregðast við morðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×