Erlent

Vill aukin útgjöld þrátt fyrir Brexit

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB. vísir/afp
Útgjöld Evrópusambandsins verða að vera meiri en eitt prósent af vergri landsframleiðslu sambandsins þrátt fyrir útgöngu Bretlands úr ESB. Þessu lýsti Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á fundi í gær um næstu sjö ára fjárlög Evrópusambandsins sem taka eiga gildi árið 2021.

Juncker sagði að á þessum fjárlögum þyrfti að einblína á sameiginleg verkefni ríkja ESB, til að mynda varnar­mál, öryggismál, innflytjendamál, loftslagsmál og landbúnað. „Bretar munu yfirgefa okkur. Þess vegna þurfum við að finna leiðir til þess að bregðast við milljarða evra tekjutapi.“

Að sögn Günthers Öttinger, fjármálastjóra ESB, þarf að fylla upp í tólf til þrettán milljarða evra gat eftir Brexit. Það samsvarar um 1,5 billjónum íslenskra króna.

Juncker sagði að þótt ráðist yrði í endurskoðun og nútímavæðingu verkefna og stefna ESB þyrftu aðildarríki að dæla auknu fé í sambandið vegna nýrra sameiginlegra verkefna „Það er einfaldlega ekki hægt að fjármagna þessi verkefni með einungis prósenti af auði Evrópu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×