Erlent

Hótar lokun „til lengri tíma“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ef Demókrataflokkurinn kemur ekki til móts við fimm milljarða dala kröfu Trumps mun um fjórðungur stofnana alríkisstjórnarinnar loka að miðnætti í kvöld.
Ef Demókrataflokkurinn kemur ekki til móts við fimm milljarða dala kröfu Trumps mun um fjórðungur stofnana alríkisstjórnarinnar loka að miðnætti í kvöld. Vísir/ap
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að loka stofnunum alríkisstjórnarinnar „til lengri tíma“ verði Demókratar ekki við kröfum hans um að fjármagna múrinn sem hann vill að rísi á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Þessu hótaði Bandaríkjaforseti í röð tísta sem hann skrifaði í dag en hann fer fram á að samþykkt verði að setja fimm milljarða Bandaríkjadala í verkefnið.

Hann sagðist þurfa stuðning Demókrata í þinginu.

„Demókratarnir […] munu sennilega greiða atkvæði gegn öruggum landamærum og múrnum jafnvel þrátt fyrir að þeir vita að hann er brýn nauðsyn. Greiði Demókratarnir atkvæði á móti, mun stofnunum alríkisins loka til lengri tíma. Fólkið vill ekki opin landamæri og glæpi!“ ritaði Trump í færslu á Twitter.

Trump segir þá einnig að ef Demókrataflokkurinn komi ekki til móts við hann er ljóst að um fjórðungur stofnana alríkisstjórnarinnar mun loka að miðnætti í kvöld.

Heimavarnarráðuneytið, stofnanir sem lúta að samgöngumálum, landbúnaði, utanríkismálum og dómsmálum hætta tímabundið starfsemi að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

Trump neitar að gefa eftir varðandi vegginn

Útlit er fyrir að alríkisstofnunum verði lokað eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitaði að skrifa undir fjárlagafrumvarp sem öldungadeild Bandaríkjaþings hafði samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×