Erlent

Hótar lokun verði múrinn ekki fjármagnaður

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Trump var ekki sáttur þegar Pelosi (t.v.) kallaði mögulega lokun alríkisstjórnarinnar Trump-lokun. Mike Pence, varaforseti, sat þögull hjá.
Trump var ekki sáttur þegar Pelosi (t.v.) kallaði mögulega lokun alríkisstjórnarinnar Trump-lokun. Mike Pence, varaforseti, sat þögull hjá. Vísir/ap
Til snarpra orðaskipta kom á milli Bandaríkjaforseta og tveggja þingmanna Demókrataflokksins í Hvíta húsinu í kvöld þegar fjármögnun múrs á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna barst í tal. Forsetinn sagðist stoltur loka stofnunum alríkisstjórnarinnar tímabundið til að knýja á um fjármögnun múrsins en bygging hans var eitt af aðalkosningaloforðum Trumps.

Rifrildið átti sér stað frammi fyrir blaðamönnum og myndatökumönnum en á upptöku má sjá Bandaríkjaforseta eiga snörp orðaskipti við Chuck Schumer leiðtoga demókrata í öldungardeild þingsins og Nancy Pelosi leiðtoga demókrata í fulltrúadeildinni, um fjármögnun veggjarins.

„Ef við fáum ekki það sem við viljum, með einum eða öðrum hætti – hvort sem það er í gegnum ykkur, í gegnum herinn, í gegnum hvað sem er, þá mun ég loka öllum stofnunum alríkisstjórnarinnar“.

Schumer sagði þá að það væri óábyrgt útspil vegna ágreinings við demókrata að því er Reuters greinir frá.

„Ég myndi stoltur loka stofnunum alríkisstjórnarinnar til að tryggja örugg landamæri, Chuck, vegna þess að fólkið í þessu landi vill ekki glæpamenn og fólk sem glímir við vandamál og eitulyfjafíkn rigni inn í landið,“ sagði Trump.

Í kosningabaráttunni árið 2016 hét Trump því að múrinn yrði reistur og ennfremur að stjórnvöld í Mexíkó myndu fjármagna hann að fullu.

Fundurinn stóð ekki yfir lengi en Sarah Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði í yfirlýsingu að á fundinum hefði farið fram uppbyggileg umræða og að Trump væri þakklátur fyrir að það hefði náðst á myndband þegar hann barðist fyrir því að vernda landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×