Erlent

Þungavigtarfólk stjórnmálanna minnist George Bush eldri

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
George H. W. Bush er látinn. Samúðarkveðjum og fögrum orðum um hann hefur rignt yfir fjölskyldu hans eftir að fregnir bárust af andláti hans.
George H. W. Bush er látinn. Samúðarkveðjum og fögrum orðum um hann hefur rignt yfir fjölskyldu hans eftir að fregnir bárust af andláti hans. Logan Mock-Bunting/Getty

Stjórnmálafólk víðs vegar að úr heiminum minnist nú George H.W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Hann lést upp úr klukkan tíu í gærkvöldi á heimili sínu í Houston í Bandaríkjunum, 94 ára að aldri. Meðal þeirra sem hafa minnst forsetans eru ýmist sitjandi eða fyrrverandi þjóðarleiðtogar þó nokkurra ríkja.

Bush gegndi embætti Bandaríkjaforseta fyrir Repúblikanaflokkinn á árunum 1989 til 1993. Hann sat í forsetastól þegar Sovétríkin féllu undir lok Kalda stríðsins. Þá hafði hann einnig setið sem þingmaður Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, var sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og forstjóri leyniþjónustunnar CIA. Sonur hans, George W. Bush yngri, gegndi stöðu Bandaríkjaforseta á árunum 2001 til 2009.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, Melania, gáfu í gærkvöld út yfirlýsingu vegna andláts Bush eldri. Í henni lofuðu þau forsetann fyrrverandi fyrir „heilsteypta dómgreind, almenna skynsemi og óhagganlega leiðtogahæfileika.“

Þá mærðu þau Bush fyrir að hafa leitt Bandaríkin og heiminn allan að góðri og farsælli úrlausn Kalda stríðsins en hann var eins og áður sagði forseti þegar stríðinu lauk og átti stóran þátt í að leiða það til lykta á þann hátt sem raun bar vitni.

Fyrrum forsetar fara fögrum orðum um starfsbróður sinn

Fyrstur fyrrverandi Bandaríkjaforseta til þess að minnast Bush var Barack Obama, 44. forseti Bandaríkjanna. Í yfirlýsingu sem hann og eiginkona hans, Michelle, sendu frá sér í gærkvöldi sagði að Bush haf verið „vitnisburður um þá hugmyndafræði að vinna í þágu almennings væri göfugt og gleðilegt starf og hann hafi áorkað margt gott á ferðalagi sínu.“

Í yfirlýsingu hjónanna sagði einnig að arfleið Bush væri slík að „erfitt yrði að jafnast á við hana, en hann [Bush] myndi vilja að allir reyndu.“

Þá hafa Bill Clinton og Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforsetar báðir minnst Bush og farið fögrum orðum um hann.

Clinton, sem lagði Bush að velli í forsetakosningunum 1992 og kom honum út úr hvíta húsinu eftir eitt kjörtímabil, gaf út yfirlýsingu í dag þar sem hann sagðist „eilíflega þakklátur“ fyrir vinskapinn sem myndaðist á milli forsetanna tveggja.

Jimmy Carter, sem sat á forsetastól á árunum 1977 til 1981 vottaði fjölskyldu Bush samúð sína um leið og hann jós forsetann fyrrverandi lofi og sagði hann meðal annars að Bush hafi lifað lífi sem einkenndist af þjónustu og virðingu við náungann.

Á þessari mynd má sjá alla eftirlifandi fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, auk hins nýlátna Bush eldri, sem er annar frá vinstri á myndinni.Getty/Rick Kern

Merkel segir Þýskaland eiga Bush mikið að þakka

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, minntist George W.H. Bush sem „sanns vinar“ þjóðar hennar en hann studdi sameiningu Þýskalands árið 1990. Merkel sagði í bréfi til Donalds Trump Bandaríkjaforseta að Bandaríkin hefðu misst „sannan föðurlandsvin og stjórnspeking.“ Merkel lagði í bréfinu mikla áherslu á þátt Bush í sameiningu austur- og vestur- Þýskalands undir lok Kalda stríðsins.

„Þýska þjóðin átti í honum [Bush] sannan vin sem áttaði sig á sögulegu mikilvægi þess tíma sem var og veitti okkur allt sitt traust og stuðning.“

Merkel, sem fæddist í austur-Þýskalandi kommúnismans er nú, eins og aðrir leiðtogar G20 ríkjanna, stödd á leiðtogafundi í Buenos Aires. Meðal annarra G20 ríkja eru Bandaríkin, Japan, Bretland, Rússland og Sádi-arabía.

Á blaðamannafundi á leiðtogafundinum sagði Merkel að ef ekki væri fyrir verk Bush gæti hún „líklega ekki staðið hér,“ og vísaði þar til framlags Bush til sameiningar Þýskalands og raun allrar Evrópu eftir Kalda stríðið.   

Merkel og Bush á góðri stundu við opnun nýs sendiráðs Bandaríkjanna í Berlín árið 2008.Sean Gallup/Getty

Samúðarkveðjur þjóðarleiðtoga hrannast inn

Samúðarkveðjum og lofi um fyrrverandi forsetann hefur beinlínist rignt inn eftir að fréttir af andláti hans brutust út en fjöldamargir þjóðarleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum hafa vottað Bush-fjölskyldunni og Bandaríkjunum öllum samúð sína og lofað Bush upp í hástert.

Bandalagsþjóðir Bandaríkjanna við Persaflóa hafa margar hverjar sent samúðarkveðjur vestur um haf en þar ber að nefna Sameinuðu arabísku furstadæmin, Oman og Kúveit en undir stjórn Bush tóku Bandaríkin þátt í Persaflóastríðinu þar sem írakski herinn var hrakinn burt úr Kúveit.

Þá hafa forsætisráðherrar Bretlands, Japans og Nýja-Sjálands allir vottað samúð sína vegna andláts Bush og farið fögrum orðum um hann og hans framlag til friðar í Evrópu og framvindu Persaflóastríðsins.

Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi hinna sálugu Sovétríkja, og Dalai Lama, leiðtogi Tíbet, hafa einnig minnst Bush og vottað fjölskyldu hans og þjóð samúð sína. Líklegt verður að teljast að samúðarkveðjum til fjölskyldu forsetans muni fara fjölgandi á næstu misserum.

Bush og Mikhail Gorbachev, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, á leiðtogafundi í Moskvu 1991.Peter Turnley/Getty

Bush heimsótti Bessastaði

Bush kom hingað til lands árið 2006 en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands á árunum 1996 til 2016, var gestgjafi hans á meðan á heimsókninni stóð. Ólafur Ragnar fór fögrum orðum um Bush þar sem hann minntist Bandaríkjaforsetans fyrrverandi í Víglínu Stöðvar 2 fyrr í dag.

„Ég held að hann muni eiga mjög merkan sess í veraldarsögunni, vegna þess að þó hann hafi aðeins setið eitt kjörtímabil þá gegndi hann algjöru lykilhlutverki í því að Vesturveldunum og Austur-Evrópu tókst að ljúka kalda stríðinu og fara inn í nýtt tímabil með tiltölulega farsælum hætti.“

Frétt Stöðvar 2 um andlát George H. W. Bush og orð Ólafs Ragnars um forsetann fyrrverandi má sjá hér að neðan.

 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×