Enski boltinn

„Maðurinn minn fór á fótboltaleik og kom aldrei til baka“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool leikmennirnir Andy Robertson og Georginio Wijnaldum með fána til stuðnings Sean Cox.
Liverpool leikmennirnir Andy Robertson og Georginio Wijnaldum með fána til stuðnings Sean Cox. Vísir/Getty
Martina Cox, eiginkona Liverpool-stuðningsmannsins sem var ráðist á fyrir Meistaradeildarleik Roma og Liverpool síðasta vor, hefur tjáð sig opinberlega um afleiðingar árásarinnar fyrir fjölskylduna.

Sean Cox var mættur á Anfield til að horfa á undanúrslitaleik Liverpool og AS Roma í apríl en fyrir leikinn var ráðist á hann fyrir utan leikvanginn.

Martina Cox segir að árásin hafi bara staðið yfir í sautján sekúndur en að þessar sautján sekúndur muni hafa áhrif á hans líf allt til dauðadags.

Sean Cox er 53 ára gamall en í dag getur hann ekki talað, gengið eða sitið uppi án aðstoðar.

Sean Cox er harður stuðningsmaður Liverpool og tók þá ákvörðun á síðustu stundu að drífa sig til Liverpool og á leikinn. Hann býr á Írlandi en bróðir hans fór með honum á leikinn.

„Eiginmaðurinn minn fór á fótboltaleik í apríl og kom aldrei til baka,“ sagði Martina Cox í viðtali við BBC.

„Hann hefur verið stuðningsmaður Liverpool alla sína ævi. Sean fór reglulega á leiki, annaðhvort með bróður sínum eða öðrum úr fjölskyldunni. Það var hluti af hans lífi,“ sagði Martina Cox.





„Hann þekkti mjög vel til þarna og hélt hann væri öruggur,“ bætti Martina við.

Það var stuðningsmaður Roma sem réðst á Sean klukkutíma fyrir leik. Árásin var gerð fyrir framan bar í aðeins nokkra metra fjarlægð frá leikvanginum. Enginn hefur samt verið dæmdur sekur fyrir þessa árás.

Sean Cox er þriggja barna faðir en börnin hans eru Jack, 21 árs, Shauna, 20 ára, og Emma, 17 ára. Hann fékk mjög slæma höfuðáverka í árásinni og var vart hugað líf. Hann lifði hinsvegar af en líf hans verður aldrei það sama.

Martina Cox segir frá upplifun sinni af því að fá þessar skelfilegu fréttir í viðtalinu sem og hvernig líf fjölskyldunnar hefur breyst. Það má finna allt viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×