Erlent

Útlit fyrir miklar deilur næstu tvö árin

Samúel Karl Ólason skrifar
Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrataflokksins í fulltrúadeildinni, fagnaði kosningunum.
Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrataflokksins í fulltrúadeildinni, fagnaði kosningunum. AP/Jacquelyn Martin

Repúblikanaflokkurinn hefur bætt við nauman meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings og Demókratar hafa tryggt sér meirihluta í fulltrúadeildinni. Þá nældu Demókratar sér einnig í nokkra nýja ríkisstjóra í Bandaríkjunum. Enn er ekki búið að telja öll atkvæði og staðan mun skýrast betur í dag. Ekki liggur fyrir hve stór meirihluti Demókrata verður, né hve stór meirihluti Repúblikana verður.

Í gær og í nótt var kosið um öll 435 sæti fulltrúadeildarinnar, 35 sæti öldungadeildarinnar og 36 embætti ríkisstjóra.

Þessar vendingar munu líklegast ekki reynast Donald Trump, forseta, vel og munu Demókratar geta staðið í hárinu á honum varðandi löggjöf, fjárveitingar og fleira. Þar að auki munu Demókratar líklega nota þingnefndir fulltrúadeildarinnar til að rannsaka Trump á ýmsa vegu.

Þá voru ýmsar nýjungar í kosningunum í dag. Fyrsti samkynhneigði ríkisstjórinn var kosinn í Colorado, yngsta konan var kosin á þing og tvær konur sem eru íslamstrúar voru sömuleiðis kjörnar á þing. Þar að auki voru tvær konur af indíánaættum kjörnar á þing og er það sömuleiðis í fyrsta sinn.

Margir þingmenn Repúblikanaflokksins sem misstu þingsæti sín hafa verið gagnrýnir á Donald Trump og segja sérfræðingar líklegt að þingmenn flokksins verði hliðhollari forsetanum en þeir hafa verið hingað til.

Yfirtaka Demókrata í fulltrúadeildinni mun án efa hafa mikil áhrif á forsetatíð Trump.

Hingað til hefur Trump þurft að reiða sig að mestu á samsæriskenningar til að skapa sér óvini. Sérstaklega þar sem Repúblikanar hafa stýrt báðum deildum þingsins og Hvíta húsinu. Meðal annars hafa Trump-liðar oft talað um að skuggasamtök embættismanna sem hliðhollir eru Barack Obama, forvera Trump, hafi unnið gegn forsetanum og reynt að koma höggi á hann við hvert tækifæri og grafi undan honum.

Nú mun Trump geta kvartað yfir því að Demókratar í fulltrúadeildinni standi í vegi hans, sem þeir munu að öllum líkindum gera. Þannig mun Trump geta stappað stáli í Repúblikana og stuðningsmenn þeirra. Þrátt fyrir að hann hafi hrósað Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata í fulltrúadeildinni, fyrir sigurinn í kvöld og tekið undir ákall hennar eftir samstarfi.

Með því að hafa tryggt stöðu sína í öldungadeildinni geta Repúblikanar haldið áfram að tilnefna alríkisdómara og aðra háttsetta embættismenn. Tilnefning dómara hefur verið stór liður í áætlun Repúblikana og opinbert markmið þeirra er að koma ungum íhaldsmönnum í dómarasæti til næstu áratuga.

Sjá einnig: „Þetta mun hafa afleiðingar 40 ár fram í tímann“

Kjörsókn hefur verið mun betri en í sambærilegum kosningum á undanförnum árum. Víða var kjörsókn sambærileg og í forsetakosningunum 2016. Kannanir gefa til kynna að flestir kjósendur hafi einblínt á heilbrigðismál, málefni innflytjenda og Trump sjálfan við ákvörðun þeirra í kjörklefum.

Þá þykir ljóst að Trump hafi tryggt yfirráð sín yfir Repúblikanaflokknum í kosningunum. Bæði hafa margir andstæðingar hans innan flokksins látið af störfum og aðrir sem hafa gagnrýnt forsetann töpuðu.

Þó að Trump hafi fagnað niðurstöðunum á Twitter er  ljóst að störf hans munu verða mun erfiðari næstu tvö árin.

Fylgst var með gangi mála í kosningunum í alla nótt á Vísi eins og sjá má að neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.