Erlent

Tugþúsundir flýja skógarelda í Kaliforníu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eldarnir hafa farið mjög hratt yfir.
Eldarnir hafa farið mjög hratt yfir. AP/Brian Little
Yfirvöld í norðurhluta Kaliforníu-ríkis í Bandaríkjunum hafa skipað tugþúsund íbúa ríkisins að að flýja skógarelda sem fara hratt yfir. Sumir þurfti beinlínis að aka í gegnum eldtungurnar til þess að komast í burtu.

Öllum 27 þúsund íbúum Paradise Town var skipað að yfirgefa heimili sín en bærinn er í um 300 kílómetra fjarlægð frá San Fransisco. Í samtali við fréttastofu AP sagði Gina Oviedo að ástandið í bænum hafi verið skelfilegt. Fólk hafi þurft að flýja undan eldinum með hraði, sumir haldandi á börnum og gæludýrum.

Fyrstu fregnir af eldunum bárust í morgunsárið en á aðeins sex tímum náðu eldarnir yfir 69 ferkílómetra svæði. Lítill raki er í loftinu þessa dagana auk þess sem mjög hvasst hefur verið en það eru kjöraðstæður fyrir skógarelda að sögn talsmanns slökkviliðsins á svæðinu.

Shari Bernacett, sem rekur húsbílasvæði í Paradise Town, segir að hún hafi aðeins fengið nokkrar mínútur til þess að láta íbúa á svæðinu vita af eldunum og að yfirgefa þyrfti svæðið.

„Eiginmaðurinn reyndi að vara sem flesta við. Öll hæðin var logandi. Guð hjálpi okkur,“ sagði hún. Þau hafi síðan rétt náð að komast í bílinn áður en þeim tókst að aka í gegnum eldtungurnar og á öruggt svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×