Erlent

Ástandið versnar enn í Jemen og milljónir eru í hættu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Líkurnar á hungursneyð í hafnarborginni Hodeidah í Jemen aukast dag frá degi. Þetta jemenska barn þjáist af vannæringu.
Líkurnar á hungursneyð í hafnarborginni Hodeidah í Jemen aukast dag frá degi. Þetta jemenska barn þjáist af vannæringu. vísir/getty
„Milljónir örvæntingarfullra barna og fjölskyldna víðs vegar í Jemen gætu senn verið án matar, vatns og hreinlætisvara vegna versnandi efnahagsástands og linnulauss ofbeldis í hafnarborginni Hodeidah,“ sagði Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í yfirlýsingu í gær.Hún sagði að samspil þessara tveggja þátta yki líkurnar á því að ástand, sem nú þegar er slæmt, versni enn frekar.Að sögn Fore eru vatns- og skólpkerfi borgarinnar að hruni komin vegna ört hækkandi eldsneytisverðs. Það þýðir að stór hluti fyrrnefndra barna og fjölskylda gæti verið í enn meiri hættu.„Ástandið gæti leitt til þess að faraldur brýst út og vannæring eykst.“ Þannig aukast sömuleiðis líkurnar á hungursneyð.„Að okkar mati munu 1,2 milljónir til viðbótar vera í sárri vatnsþörf brátt og líklega mun sú tala hækka á næstu dögum.“Nú þegar búa 18,5 milljónir Jemena við lítið sem ekkert matvælaöryggi og sú tala fer hækkandi.„Þessar aðstæður, sem eru hrikalegar einar og sér, fara versnandi vegna ástandsins í Hodeidah þar sem átökin ógna lífi barna og flutningi eldsneytis og neyðarbirgða til Jemena. Ef ráðist er á höfnina og hún sködduð eða sett í herkví gætu fjórar milljónir barna til viðbótar þurft að búa við sáran skort.“Íslandsdeild UNICEF hefur staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir jemensk börn frá því í maí. Að því er kemur fram í tölvupósti frá UNICEF á Íslandi til Fréttablaðsins hafa sextán milljónir safnast. Enn er hægt að senda SMS-ið Jemen í númerið 1900 og gefa þannig 1.900 krónur.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.