Erlent

Sádar staðfesta andlát Khashoggi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jamal Khashoggi.
Jamal Khashoggi. Vísir/AP
Ríkissjónvarp Sádí Arabíu hefur staðfest að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi er látinn. Guardian greinir frá þessu. Khashoggi hvarf fyrr í mánuðinum en hann sást síðast ganga inn í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi og hafa Tyrkir haldið því fram að hann hafi verið myrtur þar inni og lík hans bútað í sundur.

Nú hefur andlát Khashoggi fengist staðfest, en samkvæmt fréttaflutningi Sáda lenti Khashoggi í áflogum við þá sem hann hafði haldið til fundar við inni á skrifstofunni með þeim afleiðingum að hann lést.

Khashoggi hafði á síðasta árinu starfað fyrir Washington Post í Bandaríkjunum, hvar hann var í sjálfskipaðri útlegð. Khashoggi þorði ekki að snúa aftur til heimalands síns, Sádí Arabíu, vegna ótta við að vera refsað fyrir gagnrýni sína á stefnu krónprins Sádí-Arabíu og stjórnar hans.

Þá kom einnig fram í fréttum Sáda að Ahmed al-Assiri, háttsettum leyniþjónustumanni tengdum málinu, hafi verið sagt upp störfum. Þá hafa 18 Sádar verið handteknir í tengslum við morðið á Khashoggi.


Tengdar fréttir

Mál Khashoggi alvarlegt fyrir prins

Blaðamaðurinn Jamal Khashoggi sagður hafa verið pyntaður og aflimaður áður en hann var myrtur. Mál hans er umtalað á alþjóðavettvangi og svertir orðspor krónprins Sádi-Araba, sem hefur haft þá ímynd að vera umbótasinni.

Hinsti pistill Khashoggi birtur

Bandaríska dagblaðið Washington Post hefur birt síðasta pistil hins týnda sádiarabíska blaðamanns Jamal Khashoggi. Grunur leikur á um að hann hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×