Erlent

Segja mögulegt að skemmdarverk hafi verið unnið á geimstöðinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirmaður geimferðastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir koma til greina að gat sem fannst á alþjóðlegu geimstöðinni hafi verið gert vísvitandi.
Yfirmaður geimferðastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir koma til greina að gat sem fannst á alþjóðlegu geimstöðinni hafi verið gert vísvitandi. Vísir/AP

Yfirmaður geimferðastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir koma til greina að gat sem fannst á alþjóðlegu geimstöðinni hafi verið gert vísvitandi. Það hafi verið borað og þá jafnvel af einum af geimförum geimstöðvarinnar. Gatið fannst á rússnesku geimfari sem er áfast stöðinni og ógnaði það aldrei lífi geimfaranna.

Þeir fundu það tiltölulega fljótt eftir að í ljós kom að þrýstingur um borð í geimstöðinni hafði lækkað og lokuðu því með sérstöku límbandi.

Talið hafði verið að gatið hefði myndast eftir að lítill loftsteinn eða geimrusl hefði lent á geimstöðinni.

Dmitry Rogozin, yfirmaður Roscosmos, segir að gatið hafi verið borað og þá annað hvort á jörðinni eða út í geimi. Hann segir nokkrar tilraunir hafa verið gerðar og að svo virðist sem að stressaður maður hafi haldið á borvélinni.

„Við erum að kanna hvort þetta gerðist á jörðinni en við útilokum ekki að þetta hafi verið gert út í geimnum,“ sagði Rogozin, samkvæmt AFP fréttaveitunni. Enn fremur segir að hann að rannsóknarnefnd verði stofnuð og hennar verkefni verði að finna sökudólginn.

Sá hluti geimfarsins sem gatið fannst á verður ekki notaður til að flytja geimfara aftur til jarðarinnar. Þá eru Rússar að skoða önnur geimför á jörðu niðri. Bæði þau sem eru í framleiðslu og þau sem eru tilbúin til geimskota.

Sex geimfarar eru nú í geimstöðinni. Þrír þeirra eru frá Bandaríkjunum, tveir eru frá Rússlandi og einn er frá Þýskalandi.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.