Erlent

Leki kom á Alþjóðlegu geimstöðina

Kjartan Kjartansson skrifar
Útsýnið frá Alþjóðlegu geimstöðinni á mynd sem þýski geimfarinn Alexander Gerst tók nýlega.
Útsýnið frá Alþjóðlegu geimstöðinni á mynd sem þýski geimfarinn Alexander Gerst tók nýlega. ESA/NASA-A.Gerst

Áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðina vinnur nú að viðgerðum eftir að hægur súrefnisleki greindist um borð í gærkvöldi. Sex geimfarar eru um borð í geimstöðinni en þeir eru sagðir hafa nægt loft um borð sem endist þeim í nokkrar vikur.

Í frétt á vef Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) kemur fram að leiðangursstjórn geimstöðvarinnar hafi uppgötvað þrýstingsfall í gærkvöldi. Það hafi þó verið afar lítið og því hafi áhöfninni verið leyft að sofa áfram.

Svo virðist sem að leki hafi komið á Soyuz-geimfar sem liggur við festar við rússneska hluta geimstöðvarinnar. Geimfararnir vinna nú að því að koma í veg fyrir lekann. Space.com hefur eftir rússneskum fjölmiðlum að lekinn hafi komið af völdum lítillar sprungu sem virðist hafa myndast við árekstur við geimörðu, rykagnir í geimnum.

Þrír bandarískir, tveir rússneskir og einn þýskur geimfari er um borð í geimstöðinni. Soyuz-geimfarið flutti þau Serenu Auñón-Chancellor, Sergei Prokópjév og Alexander Gerst til geimstöðvarinnar í júní. Það á að koma þeim heim til jarðar í desember. Dmitrí Rogozin, forstjóri rússnesku geimstofnunarinnar Roscosmos, segir að geimfararnir geti gert við farið með tækjum um borð í geimstöðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.