Innflytjendayfirvöld í Bandaríkjunum fá að halda börnum ótímabundið í innflytjendafangelsum með foreldrum sínum samkvæmt tillögu um breytingar á reglum sem ríkisstjórn Donalds Trump forseta kynnti í dag. Nær öruggt er talið að reglubreytingin komi til kasta dómstóla.
Tillaga heimavarnar- og heilbrigðisráðuneytanna felur í sér að alríkisstjórnin rifti sátt sem gerð fyrir fyrir rúmum tuttugu árum um meðferð á börnum fólks sem kemur ólöglega til Bandaríkjanna. Með henni hefur innflytjendayfirvöldum verið óheimilt að halda börnunum lengur en í tuttugu daga.
Nýju reglurnar þýða að hægt verður að halda börnunum lengur með foreldrum sínum í innflytjendafangelsum, að sögn Washington Post. Þannig gætu yfirvöld haldið börnunum þar til mál þeirra hafa verið til lykta leidd fyrir dómstólum.
Ríkisstjórn Trump varð harðlega gagnrýnd í sumar fyrir að hafa skilið þúsundir barna frá foreldrum sem höfðu komið ólöglega til Bandaríkjanna. Markmiðið var að fæla fólk frá því að reyna að komast inn í landið. Í mörgum tilfellum voru foreldrar sendir til heimalanda sinna án barnanna. Svo hávær voru mótmælin að stjórnin hættu þeirri stefnu sinni.
Heimavarnarráðuneytið fullyrðir að nýju reglurnar grafi ekki undan réttindum sem börnin nutu áður. Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherran, segir að með reglunum sé lokað á lagalegar smugur sem komu í veg fyrir að ráðuneytið gæti handtekið og vísað úr landi fjölskyldum sem ættu ekki rétt á að vera áfram í Bandaríkjunum.
Washington Post segir að rökstuðningur ráðuneytisins fyrir því að halda fjölskyldum í varðhaldi sé að tryggja að þær mæti fyrir innflytjendadómstóla. Svo löng bið er hins vegar eftir að mál séu tekin fyrir þar að nýju reglurnar gætu þýtt að fjölskyldum verði haldið föngnum svo mánuðum skiptir.
Trump-stjórnin vill geta lokað börn farandsfólks inni ótímabundið

Tengdar fréttir

Hrakin út af mexíkóskum veitingastað eftir að hafa komið aðskilnaðarstefnunni í framkvæmd
Sem heimavarnarmálaráðherra framfylgdi Nielsen aðskilnaðarstefnu Bandaríkjastjórnar í innflytjendamálum, þ.e. að aðskilja börn ólöglegra innflytjenda frá foreldrum sínum við landamærin milli Bandaríkjanna og Mexíkó.

Trump bannar aðskilnað barna frá foreldrum sínum
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skrifað undir tilskipun sem stöðvar aðskilnað barna frá foreldrum sínum við landamæri landsins.

Trump ætlar að „skrifa undir eitthvað“ varðandi aðskilnað barna frá foreldrum sínum
Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, Kirstjen Nielsen, hefur unnið drög að tilskipun um að börn verði ekki aðskilin frá foreldrum sínum.

Óvíst hvað verður um börnin
Það er alls óvíst hvað verður um þau 2.300 börn sem yfirvöld skildu frá foreldrum sínum á síðustu vikum.