Þá er alls óvíst hvað verður um þau 2.300 börn sem yfirvöld skildu frá foreldrum sínum á síðustu vikum. Embættismenn hafa sagt að unnið sé að því að koma þeim aftur til fjölskyldna sinna eins fljótt og auðið er en hafa ekki veitt nein skýr svör um hvernig það komi til með að gerast.
Tilskipunin, sem er fjögurra blaðsíðna plagg, kveður á um að fjölskyldur, sem koma ólöglega til landsins, verða ekki aðskildar við komuna heldur haldið saman í að minnsta kosti tuttugu daga. Stefnan er ennþá hörð og verða ólöglegir innflytjendur áfram hnepptir í varðhald eins og verið hefur síðustu vikur en ekki aðskildir frá börnum sínum.

Peter Schey, lögmaður sem hefur aðstoðað börn ólöglegra innflytjenda, segist fagna stefnubreytingu yfirvalda. Stefnan sem nefnist „ekkert umburðarlyndi“ hafi verið með öllu ómannúðleg. Hann segir aftur á móti að hann hafi miklar áhyggjur af þeim börnum – sem eru fleiri en 2000 talsins – sem hafa þegar verið aðskilin frá foreldrum sínum. Tom Carper, þingmaður Demókrataflokksins, lýsti í dag yfir áhyggjum sínum af stöðu mála. Hann segir að það sé ekki ljóst að foreldrar geti yfir höfuð haft uppi á börnum sínum.

Þá hefur Kay Bellor, varaforseti innflytjendasamtaka sagt: „Börn munu nú ekki verða hrifsuð frá foreldrum sínum í þeim eina tilgangi að hræða innflytjendur en verða þess í stað sett í fangelsi með foreldrum sínum. Fangelsi er aldrei viðeigandi staður fyrir barn.“
Upphaflega lýsti forsetinn því yfir að hann væri algjörlega valdalaus gagnvart ástandinu og vísaði ábyrgðinni á þingið. Það var ekki fyrr en alþjóðasamfélagið lagðist á eitt og fordæmdi meðferðina á börnunum sem Trump brást við og skrifaði undir forsetatilskipunina, sem sýnir auðvitað að hann var sannarlega ekki valdalaus yfir örlögum barnanna eins og hann hafði áður haldið fram.
Konurnar á bakvið tjöldin
Ráðherra heimavarna, Kirstjen Nielsen, varð eins konar andlit stefnu aðskilnaðar út á við eftir harðsnúinn blaðamannafund á mánudaginn þar sem hún varði aðskilnaðinn með kjafti og klóm. Hún sagði staðföst: „Við biðjumst ekki afsökunar á því að vinna vinnuna okkar.“ Eftir fundinn var hart sótt að Nielsen og var meðal annars mótmælt fyrir utan heimili hennar og þá varð mikil uppákoma þegar hún snæddi kvöldverð á mexíkóskum veitingastað skammt frá Hvíta húsinu og hópur fólks hrópaði ókvæðisorð að henni og sagði henni að skammast sín fyrir framgöngu sína.

Þá hefur komið fram í erlendum fjölmiðlum að Melania Trump, forsetafrú, hafi þrýst á eiginmann sinn „á bak við tjöldin“ að gera allt sem í hans valdi stæði að aftra því að börn verði tekin frá foreldrum sínum. Þetta á einnig við um elstu dóttur Trumps
„Eiginkona mín hefur sterkar skoðanir á þessu,“ sagði Trump í Hvíta húsinu við undirritunina.