Enski boltinn

Leitaði sér aðstoðar sálfræðings eftir að verða fyrir kynþáttaníð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ilkay Gündogan er ekki enn kominn yfir atburði sumarsins.
Ilkay Gündogan er ekki enn kominn yfir atburði sumarsins. vísir/getty
Ilkay Gündogan, leikmaður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, viðurkennir í viðtali við þýskt dagblað að hafa leitað sér aðstoðar sálfræðings eftir að hann varð fyrir kynþáttaníð í leik með þýska landsliðinu fyrir HM í Rússlandi.

Gündogan fór með liðsfélaga sínum í þýska landsliðinu, Mesut Özil, leikmanni Arsenal, að hitta umdeilda tyrkneska forsetann Recip Erdogan í tyrkneska sendiráðinu í London í maí á þessu ári.

Þeir félagarnir eru báðir frá Gelsenkirchen í Þýskalandi en eru af tyrkneskum uppruna. Þessi hittingur var ekki vinsæll hjá sumum stuðningsmönnum þýska liðsins og voru þeir látnir heyra það í vináttuleik gegn Austurríki fyrir HM 2018.

Gündogan fékk gagnrýni um allt Þýskaland, meðal annars frá stórum stjórnmálamönnum fyrir að afhenda Erdogan Manchester City-treyju sem á stóð: „Til forseta míns, með virðingu.“

„Ég ræddi aðeins við sálfræðing þýska landsliðsins. Ég vildi athuga hvort hann gæti hjálpað mér. Ég held samt að enginn geti hjálpað mér,“ segir Gündogan um atburði sumarsins í viðtali við þýska dagblaðið WAZ.

„Þegar sótt er að manni úr svona mörgum áttum, stuðningsmennirnir baula á mann og þýskir stjórnmálamenn móðga mann hefur maður áhyggjur. Ég vil samt ekki hlaupa undan vandamálinu. Ég vil tækla þetta mál,“ segir Ilkay Gündogan.

Mesut Özil tók þessu öllu saman enn verr og hætti að spila fyrir þýska landsliðið. Hann sagði að þegar að hann spilaði vel væri hann Þjóðverji en þegar að hann spilaði illa væri hann innflytjandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×