Fótbolti

Kroos gagnrýnir ásakanir Özil: „Held hann viti að það er ekki rasismi innan þýska liðsins“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Özil og Kroos hafa verið liðsfélagar í mörg ár
Özil og Kroos hafa verið liðsfélagar í mörg ár Vísir/Getty
Þjóðverjinn Toni Kroos gagnrýnir fyrrum samherja sinn í þýska landsliðinu, Mesut Özil, fyrir það hvernig hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta með landsliðinu.

Özil tilkynnti að hann væri hættur með þýska landsliðinu stuttu eftir að liðið féll úr leik á HM í Rússlandi. Hann sendi frá sér langa tilkynningu á Twitter þar sem hann kvartaði meðal annars undan kynþáttaníði og óvirðingu.

Özil er af tyrkneskum uppruna og hann var mikið gagnrýndur fyrir HM í Rússlandi fyrir að hafa verið á mynd með forseta Tyrklands, Tayyip Erdogan.

Sjá einnig:Erdogan styður Özil: „Þetta verður ekki látið viðgangast“

„Mesut á skilið að spila með landsliðinu og hann átti skilið betri kveðjustund. Það hvernig hann fór að því að hætta var ekki í lagi,“ sagði Kroos við þýska miðilinn Bild.

„Sumt af því sem hann sagði í tilkynningunni sinni átti fullan rétt á sér en það verður undir vegna miklu hærra hlutfalls af algjörri vitleysu.“

„Ég held hann viti vel að innan landsliðsins og þýska knattspyrnusambandsins er ekki að finna kynþáttaníð eða mismunun.“

Þýskaland datt úr leik á HM eftir riðlakeppnina sem þáverandi heimsmeistari. Þjóðverjar fá tækifæri til þess að rétta úr bátnum í Þjóðadeildinni þar sem þeir eru í riðli með Hollendingum og nýkrýndum heimsmeisturum Frakka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×