Erlent

Hvíta húsið með Google til skoðunar eftir kvartanir Trump á Twitter

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sakað tæknifyrirtækið Google um að „þagga raddir íhaldsmanna“ og fela sanngjarna umfjöllun um sig. hann kvartaði yfir leitarvél fyrirtækisins á Twitter í dag. Í tístu sínum virtist forsetinn velta vöngum yfir því hvort hin meinta þöggun væri ólögleg og sagði Google vera hættulegt.

Trump sagði leitarorðin „Trump News“ nánast eingöngu skila niðurstöðum frá fjölmiðlum sem hann segir vera vinstri sinnaða.

„Þeir stjórna því sem við getum og getum ekki séð. Þetta er mjög alvarlegt ástand sem verður tekið á,“ skrifaði Trump í tveimur tístum sem hann eyddi vegna stafsetningarvillu og birti svo aftur. Tístin voru upprunalega birt fyrir klukkan sex að morgni í Washington DC.

Talsmenn tæknifyrirtækisins þvertóku fyrir að stjórnmál hefðu áhrif á niðurstöður leitarvélar Google á nokkurn hátt. Í tilkynningu segir að eina markmið leitarvélarinnar sé að skila bestu niðurstöðunum á nokkrum sekúndum.

Larry Kudlow, efnahagsráðgjafi Hvíta hússins, sagði í dag að ríkisstjórn Trump væri að „skoða“ Google, án þess að veita frekari upplýsingar.

Virði hlutabréfa Alphabet, móðurfélags Google, féll um 0,6 prósent í kjölfar tísta forsetans.

Samkvæmt Politico virðist sem að tíst Trump byggi á umdeildri grein á síðunni PJ Media. Fjallað var um greinina á Fox News í gærkvöldi. Ritstjóri PJ Media viðurkenndi í dag að rannsókn hennar væri ekki vísindaleg. Hún hefði skrifað Trump í fréttahluta leitarvélar Google í tveimur tölvum og hún hefði notast við mismunandi aðganga að Chrome.

Blaðamaður Washington Post bendir á að nokkrum mínutum eftir fyrri tíst Trump í dag googlaði hann „Trump News“ og efsta niðurstaðan var frá Fox News og grein PJ Media var meðal efstu niðurstaða.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.