Erlent

Sitjandi forseti lýstur sigurvegari kosninganna í Simbabve

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnarandstæðingar brenna kosningaspjald af Mnangagwa forseta í höfuðborginni Harare. Þeir telja að brögð hafi verið í tafli í kosningunum á mánudag.
Stjórnarandstæðingar brenna kosningaspjald af Mnangagwa forseta í höfuðborginni Harare. Þeir telja að brögð hafi verið í tafli í kosningunum á mánudag. Vísir/EPA
Kjörstjórn í Simbabve hefur lýst Emmerson Mnangagwa, sitjandi forseta landsins, sigurvegara í forsetakosningunum sem fóru fram á mánudag. Sex manns hafa fallið í aðgerðum hersins gegn mótmælendum úr röðum stjórnarandstæðinga á undanförnum dögum.

Reuters-fréttastofan segir að Mnangagwa hafi hlotið 50,8% atkvæða en Nelson Chamisa, helsti andstæðingur hans í kosningunum, hafi fengið 44,3%. Lögreglan fjarlægði fulltrúa stjórnarandstöðunnar af sviði kjörstjórnar þegar þeir höfnuðu úrslitum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Chamisa hefur haldið því fram að hann hafi verið sigurvegari kosninganna. Formaður MDC-bandalags hans segir nú að ekki sé hægt að staðfesta niðurstöður kosninganna. Kjörstjórnin segir hins vegar að ekkert vafasamt hafi átt sér stað í tengslum við þær.

Forsetakosningarnar á mánudag voru þær fyrstu frá því að Robert Mugabe var steypt af stóli í nóvember. Mnangagwa tók við sem forseti í kjölfarið. Hann segir að viðræður eigi sér nú stað á milli ríkisstjórnarinnar og Chamisa til þess að róa öldurnar.


Tengdar fréttir

Mnangagwa sakaður um að svindla í kosningunum

Nelson Chamisa, forsetaframbjóðandi Hreyfingarinnar fyrir lýðræðisumbætur í Simbabve, sagðist í gær sigurviss þrátt fyrir að kjörstjórn "svindlaði og prettaði“ til þess að hjálpa Emmerson Mnangagwa, sitjandi forseta og frambjóðanda Afríska þjóðarbandalags Simbabve.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×