Erlent

Stjórnarandstaðan í Simbabve kvartar yfir töfum

Samúel Karl Ólason skrifar
Emmerson Mnangagwa, forseti, greiddi atkvæði í morgun.
Emmerson Mnangagwa, forseti, greiddi atkvæði í morgun. Vísir/AP
Íbúar Simbabve ganga nú til sinna fyrstu kosninga án Robert Mugabe, fyrrverandi leiðtoga ríkisins, í framboði. Engar fregnir hafa borist af ofbeldi, sem hefur gjarnan fylgt kosningum í ríkinu, og mun kosningaþátttaka vera góð. Hins vegar hefur Nelson Chamisa, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, kvartað yfir töfum í þéttbýli, þar sem stuðningur við stjórnarandstöðuna er hvað mestur.

Chamisa segir tafirnar á kjörstöðum vera vísvitandi og þeim sé ætlað að draga úr kosningaþátttöku meðal stuðningsmanna sinna. Langar raðir hafa myndast við kjörstaði í Harare, höfuðborg landsins, og víðar. Allir þeir sem verða enn í röð þegar kjörstaðir loka munu fá að kjósa en andstaðan óttast að fólk muni gefast upp á biðinni.

Þá hafa eftirlitsaðilar varað við hlutdrægni í ríkisfjölmiðlum landsins, skorti á gagnsæi og ógnunum, svo eitthvað sé nefnt.

Núverandi forseti Simbabve, Emmerson Mnangagwa, hefur heitið því að kosningarnar verði trúverðugar. Það muni veita ríkisstjórn landsins viðurkenningu á heimsvísu og jafnvel laða að erlenda fjárfesta.



Yfirkjörstjórn Simbabve, sem hefur margsinnis verið sökuð um að skipuleggja sigra Mugabe á árum áður, hefur slegið á svipaða strengi og Mnangagwa og heitið frjálsum og sanngjörnum kosningum.

Mugabe stjórnaði Simbabve frá árinu 1980 allt til ársins 2017 þegar hann lét af völdum vegna þrýstings frá hernum. Nú eru rúmlega tuttugu frambjóðendur til forseta og um 130 flokkar í framboði til þings. Fái enginn forsetaframbjóðandi meira en helming atkvæða verða aðrar kosningar haldnar í september.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×