Erlent

Stjórnarandstaðan lýsir yfir sigri í Simbabve

Samúel Karl Ólason skrifar
Kjósendur í Simbabve.
Kjósendur í Simbabve. Vísir/AP
Stjórnarandstöðuflokkurinn í Simbabve, sem ber heitið MDC, hefur lýst yfir sigri í kosningunum sem haldnar voru í gær. Einn af leiðtogum flokksins segir forsetaframbjóðenda þeirra, Nelson Chamisa, hafa borið sigur úr býtum en yfirvöld landsins hafi tafið birtingu niðurstaðna kosninganna. Niðurstaðan hefur ekki verið opinberuð og verður ekki opinberuð fyrr en öll atkvæði hafa verið talin, samkvæmt yfirkjörstjórn ríkisins.

Meðlimir MDC virðast þó byrjaðir að fagna.



„Úrslitin sýna með afgerandi hætti að við höfum unnið kosningarnar og næsti forseti Simbabve sé Nelson Chamisa,“ sagði Tendai Biti á blaðamannafundi í dag.



Hann sagði MDC hafa miklar áhyggjur af fregnum um inngrip stjórnvalda og sagði allar tafir vera óásættanlegar.

Flokkurinn ZANU-PF hefur verið við völd í Simbabve frá því að landið öðlaðist sjálfstæði árið 1980. Robert Mugabe hafði stjórnað landinu þar til í fyrra að hann sagði af sér vegna þrýstings frá hernum. Starfandi forseti Simbabve, Emmerson Mnangagwa, segist sjálfur vera vongóður um sigur.

Sérfræðingar sem AFP ræddi við segja óljóst að herinn muni sætta sig við sigur MDC, sem kallað hefur eftir lýðræðislegum umbótum í Simbabve.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×