Erlent

ISIS lýsir yfir ábyrgð á árásinni í Toronto

Samúel Karl Ólason skrifar
Faisal Hussain.
Faisal Hussain.
Íslamska ríkið segist bera ábyrgð á árásinni í Toronto þar sem hinn 29 ára gamli Faisal Hussain skaut tíu ára stúlku og unga konu til bana á sunnudaginn. Þar að auki særði hann þrettán manns áður en hann var sömuleiðis skotinn til bana. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi verið skotinn af lögreglu eða hvort hann hafi beint byssu sinni að sjálfum sér.

Amaq Agency, fréttaveita ISIS, segir Hussain hafa verið „hermann ISIS“ og hann hafi framkvæmt árásina vegna kalls hryðjuverkasamtakanna eftir árásum í Vesturlöndum.

Lögreglan segir ástæðu árásarinnar ekki liggja fyrir og að Hussein hafi ekki skilið neinar vísbendingar eftir sig á samfélagsmiðlum eða annars staðar. Þá segir móðir hans hann hafa átt við geðræn vandamál að stríða, bæði geðrof og þunglyndi. Hussein fæddist í Kanada en foreldrar hans eru frá Pakistan.

Nágrannar Hussein, sem AP ræddi við, sögðu hann hafa verið sífellt brosandi, þrátt fyrir ýmis áföll sem fjölskyldan gekk í gegnum, eins og dauðsfall systur hans sem lést í bílslysi. Þó velta margir nágrannar hans vöngum yfir því hvernig hann eignaðist skammbyssu.



Lögreglan hefur gefið út nöfn þeirra sem dóu í árásinni. Þær hétu Julianna Kozis, tíu ára, og Reese Fallon, 18 ára.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×