Erlent

Árásarmaðurinn í Toronto nafngreindur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í gríska hverfinu í Toronto í gær.
Frá vettvangi árásarinnar í gríska hverfinu í Toronto í gær. Vísir/Getty
Yfirvöld í Kanada hafa nafngreint árásarmanninn sem skaut tvo til bana og særði þrettán í skotárás í Toronto í gær. Maðurinn, sem féll í skotbardaga við lögreglu, hét Faisal Hussain og var 29 ára gamall. Þá hefur önnur stúlknanna sem lést einnig verið nafngreind.

Sjá einnig: Tveir látnir eftir kúlnahríð í Kanada

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Hussain segir að hún votti aðstandendum fórnarlamba árásarinnar samúð sína vegna „hryllilegra gjörða sonar okkar.“

Þá sögðu foreldrar Hussain hann hafa glímt við alvarleg andleg veikindi. „Hjörtu okkar eru í molum til minningar um fórnarlömbin og fyrir borgina okkar,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Reese Fallon var nýútskrifuð úr framhaldsskóla og hugðist hefja háskólanám í haust.Mynd/Facebook
Greint var frá því fyrr í kvöld að tvær stúlkur, tíu og átján ára, hefðu látist í árásinni. Aðeins önnur þeirra, sú eldri, hefur verið nafngreind en hún hét Reese Fallon.

Nathaniel Erskine-Smith, þingmaður Toronto-borgar, staðfesti við fjölmiðla í dag að Fallon hefði látist í árásinni. Erskine-Smith lýsti ungu konunni sem bráðgáfaðri, ástríðufullri og drífandi. Fallon var nýútskrifuð úr framhaldsskóla og samkvæmt upplýsingum á Facebook-síðu hennar hugðist hún hefja nám við McMaster-háskólann í Ontario í haust.

Árásin átti sér stað klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma í gríska hverfinu í Toronto. Fjöldi fólks sat að snæðingi við veitingastaði götunnar þegar Hussain, vopnaður skammbyssu, hóf skothríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×