Erlent

Skoskir mótmælendur trufluðu Trump í golfi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fjölmennt lögreglulið stóð vaktina við Turnberry-golfvöll Trumps í dag. Forsetinn sést hér veifa mótmælendum, sem tóku illa í kveðjuna.
Fjölmennt lögreglulið stóð vaktina við Turnberry-golfvöll Trumps í dag. Forsetinn sést hér veifa mótmælendum, sem tóku illa í kveðjuna. Vísir/Getty

Mörg þúsund manns söfnuðust saman á götum hinnar skosku Edinborgar til að mótmæla heimsókn Bandaríkjaforseta Donalds Trumps. Forsetinn hefur nýtt helgarfríið í kjölfar opinberrar heimsóknar sinnar í Bretlandi til að spila golf og létu mótmælendur einnig í sér heyra fyrir utan golfvöllinn.

Myndir náðust af Trump leika golf ásamt syni sínum, Eric, á Turnberry-golfvellinum sem forsetinn keypti árið 2014. Fyrr í dag gerði Trump grein fyrir áætlunum helgarinnar í Skotlandi á Twitter. Hann sagðist ætla að funda, taka nokkur símtöl og spila golf – „aðallíkamsrækt“ forsetans.Um hádegisbil í dag höfðu um 50 mótmælendur safnast saman í útjaðri vallarins og veittu Trump óblíðar móttökur þegar hann mætti til golfiðkunar um tveimur tímum síðar. „Enginn Trump, engin rasísk Bandaríki,“ heyrðust mótmælendur kalla að forsetanum er hann veifaði til þeirra.

Þá taldi mótmælendahópurinn á götum Edinborgar um tíu þúsund manns í dag. Mótmælendur nutu aðstoðar hinnar frægu Trump-blöðru, sem varð að láta sér lynda að svífa yfir mótmælagöngunni í Edinborg þar eð hún fékk ekki leyfi frá lögreglu til að hefjast á loft við Turnberry-golfvöllinn.

Trump-blaðran, og önnur til, í Edinborg í dag. Vísir/GEtty

Forsetinn hefur þó ekki fengið algjöran frið fyrir ógnum úr lofti. Fyrr í dag var greint frá því að skoska lögreglan leiti nú manns sem flaug inn á bannsvæði yfir golfvellinum á svifvæng. Í eftirdragi hafði flugmaðurinn borða sem á stóð: Trump, well below par #Resist, sem má þýða sem Trump, vel undir pari.

Þá hefur opinber heimsókn Trumps mætt töluverðri andstöðu í Bretlandi en í gær mótmæltu 250 þúsund manns heimsókninni í London. Einnig var efnt til fjöldamótmæla í skosku borginni Glasgow.

Trump og eiginkona hans, Melania, lentu í Skotlandi í gærkvöldi og verða þar fram á mánudag. Því næst heldur forsetinn til fundar við Vladimir Putin forseta Rússlands í Helsinki.

Þessir mótmælendur virðast hafa skopstælt Bandaríkjaforseta. Vísir/Getty
Donald og Melania sjást hér stíga út úr forsetaþotunni, Air Force One, í Skotlandi á föstudag. Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Lögregla leitar mótmælandans á svifvængnum

Mótmælandi á svifvæng komst í gær framhjá lokunum lögreglu og sveif yfir Trump Turnberry hótelið í Skotlandi í gær. Þar hafði verið sett upp bannsvæði vegna heimsóknar Donald Trump, Bandaríkjaforseta og eiganda hótelsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.