Erlent

Hundruð þúsunda flýja vegna sögulegrar rigningar í Japan

Kjartan Kjartansson skrifar
Mannskaði hefur orðið í rigningunum í Japan.
Mannskaði hefur orðið í rigningunum í Japan. Vísir/AP
Íbúðahús í vestanverðu og miðju Japan þar sem hundruð þúsunda manna búa hafa verið rýmd vegna flóða- og skriðuhættu í úrhellisrigningu þar í dag. Veðurstofa Japans hefur lýst yfir hæsta mögulega viðvörunarstigi vegna rigningarinnar sem er sögð söguleg.

Rigningunni á ekki að slota fyrr en á sunnudag en votviðrissamt hafði verið fyrir á svæðinu. Reuters-fréttastofan segir að á einum hluta Honshu-eyju hafi úrkoman í dag verið orðin tvöfalt meiri en sú mesta sem mælst hefur í öllum júlímánuði.

Að minnsta kosti fjórir hafa látist af völdum veðursins og fjölda annarra er saknað. Lestarsamgöngur á svæðinu hafa stöðvast.

Um helmingur þeirra 210.000 manna sem var skipað að yfirgefa heimili sín vegna flóða- og skriðuhættunnar búa í kringum Kýótó. Hátt í tveimur milljónum manna til viðbótar hefur verið ráðlagt að yfirgefa heimili sín í dag.

Hætta er talin á að fellibylurinn María skelli á Okinawa-eyjum, suðvestasta hluta japanska eyjaklasans í byrjun næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×