Erlent

Hitamet slegin um allt norðurhvel

Kjartan Kjartansson skrifar
Börn að leik í gosbrunni í Volgograd í Rússlandi. Á nokkrum stöðum í sunnanverðu Rússlandi hafa hitamet verið slegin eða jöfnuð í júní.
Börn að leik í gosbrunni í Volgograd í Rússlandi. Á nokkrum stöðum í sunnanverðu Rússlandi hafa hitamet verið slegin eða jöfnuð í júní. Vísir/EPA
Írland og Skotland eru á meðal þeirra landa á norðurhveli jarðar þar sem hitamet hafa verið slegin síðustu vikuna. Hitabylgja gekk yfir Bretlandseyjar í síðustu viku sem olli því meðal annars að vegir og húsþök dælduðust og sprungu.

Í umfjöllun Washington Post kemur fram að stór háþrýstikerfi um allt norðurhvelið hafi leitt til mikils hita víða um lönd. Ekki sé hægt að tengja einstök hitamet við hnattræna hlýnun af völdum manna en í sameiningu falli þau vel að þeim veðuröfgum sem búist er við vegna hennar.

Í Skotlandi var landshitamet slegið þegar mælar sýndu 33,2°C í borginni Motherwell 28. júní. Í Glasgow var einnig sett nýtt hitamet þegar hitinn náði 31,9°C.

Á Írlandi var sett met þegar hitinn náði 32°C í bænum Shannon og þá voru hitamet slegin í Belfast og Castlederg á Norður-Írlandi dagana 28. og 29. júní.

Hitinn var svo mikill á Bretlandseyjum að á sumum stöðum bráðnaði tjara í vegum og sprungur mynduðust.

Vestan Atlantshafsins voru hitamet einnig slegin í Denver í Colorado og Burlington í Vermont í Bandaríkjunum og Montreal og Ottawa í Kanada.

Washington Post greindi frá því í vikunni að met yfir hæsta lágmarkshita á sólahring hefði líklega verið slegið í bænum Quriyat í Óman þegar hitinn fór ekki undir 42,6°C í 51 klukkustund samfellt 28. júní.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.