Erlent

Fleiri mótmælendur skotnir til bana í Níkaragva

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mótmælin hófust 18. apríl vegna stjórnarkreppu og óánægju með störf forsetans. Hann segir að um samsæri sé að ræða.
Mótmælin hófust 18. apríl vegna stjórnarkreppu og óánægju með störf forsetans. Hann segir að um samsæri sé að ræða. Vísir/AFP
Að minnsta kosti þrír mótmælendur voru skotnir til bana í nótt í Managva, höfuðborg Níkaragva. Alls hafa áttatíu og sjö látið lífið og tæplega níu hundruð særst í mótmælum gegn forseta landsins síðastliðinn einn og hálfan mánuð. Sjónarvottar segja að grímuklæddir menn hafi skotið á fólk sem var komið saman fyrir utan háskóla í miðborginni.

Fjöldi fólks flúði inn í heimavist skólans þegar skothríðin hófst og hafðist það við þar yfir nóttina af ótta við að árásarmennirnir biðu þeirra fyrir utan.

Þetta eru verstu skærur í Níkaragva í fjörutíu ár eða frá því að vinstri sinnaðir skæruliðar steyptu Somoza stjórninni af stóli. Núverandi forseti, Daniel Ortega, var einmitt í hópi þeirra skæruliða en nú standa öll spjót á honum. Hann neitar því að hafa fyrirskipað árásir á mótmælendur en vaxandi ólga er í landinu og útlit fyrir að mótmælin haldi áfram að vaxa.


Tengdar fréttir

Molnar undan stuðningi við forseta Níkaragva

Herinn, kirkjan og frammámenn í viðskiptalífinu hafa fjarlægt sig ríkisstjórn Daniels Ortega forseta eftir harkaleg viðbrögð hennar við mótmælaöldu sem geisar í Níkaragva.

Tíu hafa látist í mótmælum í Níkaragva

Hörð mótmæli standa nú yfir í Níkaragva vegna breytinga stjórnvalda á almannatryggingakerfinu þar í landi. Mótmælin eru þau mannskæðustu þar í landi frá því að forsetinn Daniel Ortega tók við embætti árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×