Íslenski boltinn

Framarar skoða meint kynþáttaníð: „Upplýsingar um að þetta sé rétt“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Formaður knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur sagði frá því á Twitter í gær að leikmenn liðsins hefðu verið beittir kynþáttaníði úr stúkunni á Framvellinum í leik Fram og Víkings í Mjólkurbikar karla í gærkvöld.

Víkingur sigraði leikinn 1-0 og verður í pottinum þegar dregið verður til 8-liða úrslita en Fram er úr leik.

Daði Guðmundsson, formaður meistaraflokksráðs Fram, ræddi við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu 977 í dag.

„Þetta er í skoðun, en við teljum okkur hafa upplýsingar um það að þetta sé rétt sem fram hefur komið. Einn gestur vallarins hafi látið einhver slík orð falla sem má tengja við rasisma. Það er eitthvað sem við fordæmum á allan hátt,“ sagði Daði.

„Staðan í því máli er sú að það er verið að afla gagna og fara yfir hvað gerðist. Svo mun stjórn knattspyrnudeildar og stjórn félagsins taka á málinu. Það verður hart tekið á því.“

Ekki er búið að ræða hvaða refsinga verði tekið til, þurfi á þeim að halda, en Daði taldi líklegt að til dæmis gæti þeim aðila sem um ræðir verið meinaður aðgangur að Framvellinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×