Erlent

Skildi drenginn eftir einan og spilaði Pokémon Go á heimleiðinni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drenguinn hékk fram af svölunum þegar Mamoudou Gassama mætti á svæðið.
Drenguinn hékk fram af svölunum þegar Mamoudou Gassama mætti á svæðið. Skjáskot
Faðir drengsins, sem bjargað var af svölum í París á dögunum, hefur verið kærður fyrir vanrækslu. Hann er sagður hafa skilið son sinn einan eftir í íbúðinni á meðan hann fór að versla.

Myndband af björguninni hefur vakið mikla athygli en á því má sjá hvernig hinn 22 ára gamli Mamaoudou Gassama klifrar upp fjórar hæðir til þess að koma drengnum til bjargar á laugardaginn.

„Hann er sannkölluð hetja,“ er haft eftir ömmu drengsins á vef breska ríkisútvarpsins, þegar hún var beðin um að lýsa Gassama. Fjölskyldan segist munu verða Malímanninum ævinlega þakklát. Gassama var sæmdur heiðursorðu fyrir björgunina auk þess sem honum var boðinn franskur ríkisborgararéttur.

Hann gæti þó þurft að koma drengnum aftur til bjargar ef marka má frásagnir fjölskyldunnar. 

Þetta sé nefnilega ekki í fyrsta sinn sem faðirinn hefur skilið barn sitt eftir eitt heima og bætir móðir drengsins við að maðurinn sé ekki vanur því að passa barnið einn.

„Ég get ekki réttlætt það sem eiginmaður minn gerði. Fólk mun benda á að þetta getur komið fyrir hvern sem er og þetta hefur komið fyrir aðra. Sonur minn var einfaldlega heppinn,“ er haft eftir móður drengsins.

Saksóknarar segja jafnframt að maðurinn hafi ekkert verið að drífa sig heim úr búðinni, því hann hafi ákveðið að spila Pokémon Go á heimleiðinni.

Drengurinn hafði flutt til föður síns, sem býr í París þar sem hann starfar, fyrir um þremur vikum síðan. Amma hans og móðir ætluðu svo að flytja til feðganna í júní.

Faðirinn er sagður miður sín vegna málsins og að starfsmenn frönsku félagsþjónustunnar muni ræða við fjölskylduna á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Hetjudáðir og hugrekki

Mamoudou Gass­ama heillaði heimsbyggðina með hetjudáð í París um helgina sem náðist á myndband. Fyrir hlaut hann orðu og ríkisborgararétt. Hér verður farið yfir nokkrar hversdagshetjur úr sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×